Hitabylgjur ekki alvarleg áþján hérlendis

Þó við þurfum ekki að hafa áhyggjur af hitabylgjum geta …
Þó við þurfum ekki að hafa áhyggjur af hitabylgjum geta þurrkar valdið skakkaföllum hérlendis. mbl.is/Sigurður Bogi

Hitabylgjur, þurrkar, aftakaúrkoma og öflugir fellibyljir hafa færst í aukana og má það með nokkurri vissu rekja til hlýnunar lofthjúpsins og yfirborðs sjávar.

Þetta kemur fram í svari Halldórs Björnssonar veðurfræðings við fyrirspurn á Vísindavefnum.

Þar segir hann að svarið við því hvort hlýnandi loftslag leiði til tíðari öfga í veðri sé hvorki einfalt já né nei, því sumar öfgar verði algengari en aðrar ekki. 

Í svari Halldórs segir að mjög líklegt sé að síðan 1950 hafi dregið úr fjölda kaldra daga og nátta en hlýjum dögum og nóttum fjölgað. Á flestum landsvæðum hafi hlýnun af mannavöldum gert hitabylgjur verri eða tíðari, auk þess sem umfang og tíðni þurrka hafi aukist á sumum svæðum, landsvæði þar sem aftakaúrkoma er tíðari nú eru líklega fleiri en svæði þar sem aftakaúrkoma er fátíðari, en mest vissa er um breytingar í Norður-Ameríku og Evrópu þar sem líklegt er að aftakaúrhelli sé nú tíðara.

Með frekari hlýnun halda áfram þær breytingar sem raktar eru hér að ofan. Á þessari öld er nánast öruggt að á flestum svæðum muni heitum dögum fjölga og köldum dögum fækka að sama skapi. Líklegt er að hitabylgjur verði lengri og tíðari en eftir sem áður má stöku sinnum búast við köldum vetrum. Það er mikil vissa fyrir því að þegar líður á öldina muni úrkoma á þurrum svæðum minnka á sama tíma og hún eykst á svæðum þar sem þegar er úrkomusamt. Líklegt er að samfara hnattrænni hlýnun verði aftakaúrkoma mjög víða ákafari og tíðari.

Þá rekur Halldór í svari sínu hvernig hlýnun lofthjúps og yfirborðs sjávar hafa áhrif á veðuröfgar. Þannig stafar aukin úrkomuákefð mestmegnis af því að heitara loft er alla jafna rakara og því meiri vatnsgufa til að breyta í rigningu og lifa hitabeltislægðir og fellibyljir á varmaorku úr hafinu.

Um Ísland segir Halldór að það kaldtempraða loftslag sem hér er geri það að verkum að ólíklegt sé að hitabylgjur verði alvarleg áþján, en að þurrkar geti valdið skakkaföllum. 

Loftslagsbreytingar munu hafa í för með sér breytingar á aftakaveðrum. Líklegt er að úrkomuákefð aukist á öldinni og því munu rigninga- og leysingaflóð taka breytingum. Erfitt er að segja fyrir um hvernig tíðni hvassviðra á Íslandi muni breytast á öldinni, en árlegur fjöldi hvassviðrisdaga á landinu sýnir verulegar sveiflur milli áratuga.

Lesa má svar Halldór í heild sinni hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert