Leiðtogi Kína, Xi Jinping, og forseti Frakklands, Emmanuel Macron, lýstu því yfir í dag að Parísarsáttmálinn sé óafturkræfur og standi en á mánudag hófu Bandaríkin formlegt úrsagnarferli.
Leiðtogar margra af helstu ríkjum heims hafa lýst áhyggjum eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað að standa við kosningaloforð sitt um að draga Bandaríkin út úr samkomulaginu.
Í sameiginlegri yfirlýsingu Xi og Macron eftir fund þeirra í Peking í dag lýstu þeir yfir stuðningi við Parísarsáttmálann og að honum verði ekki breytt. Um kröftugar aðgerðir í þágu loftslagsins sé að ræða. Án þess að nefna Bandaríki á nafni sagðist Macron harma ákvarðanir sem aðrir hafi tekið.