Læknar sem meðhöndla sjúkling með sjaldgæfan lungnasjúkdóm, sem venjulega greinist á meðal stáliðnaðarmanna, telja að rafrettunotkun hans sé um að kenna.
Rafrettur eru seldar sem öruggari valkostur en hefðbundnar tóbaksvörur og sem hjálpartæki við að hætta að reykja. Þær hafa þó verið bendlaðar við aukinn fjölda dauðsfalla að undanförnu ásamt heilsufarsvandamálum, sérstaklega í Bandaríkjunum.
Vísindamenn við Kaliforníu-háskóla í San Francisco segja að sjúklingurinn hafi fengið harðstáls-lungnasjúkdóm sem venjulega greinist á meðal fólks sem hefur verið nálægt málmum á borð við kóbolt og þungstein sem eru notaðir við að skerpa verkfæri eða við slípun demanta.
Sjúkdómurinn veldur sífelldum hósta og öndunarerfiðleikum og skilur eftir sig skemmd í lungnavef.
„Þessi sjúklingur hafði ekkert komist í tæri við harðstál sem vitað er til og þess vegna teljum við notkun hans á rafrettum vera líklega ástæðu,“ sagði Kirk Jones, prófessor við háskólann.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar, sem var birt í European Respiratory Journal, kemur fram að þegar vísindamenn skoðuðu rafrettu sjúklingsins, sem hafði innihaldið kannabis, fundu þeir kóbolt í reyknum sem kom þaðan út, auk annarra eitraðra málma, þar á meðal nikkel, ál og blý.
Aðrar rannsóknir hafa einnig gefið í skyn að slíka málma sé að finna í rafrettum.