Fimmtungur finnur fyrir umhverfiskvíða

Fremst er Ok, sem var jökull en er það ekki …
Fremst er Ok, sem var jökull en er það ekki lengur. Í baksýn er horft til Þórisjökuls, sem gæti einnig horfið líkt og fleiri íslenskir jöklar ef loftslag heldur áfram að hlýna eins og spáð er. mbl.is/RAX

Fimmtungur fullorðinna Íslendinga segist almennt finna fyrir umhverfiskvíða að því er fram kemur í Þjóðarpúlsi Gallup.

Hugtökin loftslagskvíði og umhverfiskvíði eru tiltölulega ný af nálinni en áhyggjur fólks af umhverfismálum og framtíð þeirra hafa verið sífellt meira í umræðunni. Með umhverfiskvíða (eco anxiety) er átt við kvíða sem tengist neikvæðum umhverfisáhrifum af mannavöldum, eins og mengun eða loftslagsbreytingum. Fleiri segjast hins vegar almennt finna fyrir litlum umhverfiskvíða, eða nær 56%, og tæplega 23% segjast hvorki finna fyrir miklum né litlum kvíða.

Ríflega helmingur landsmanna hefur áhyggjur af þeim afleiðingum sem loftslagsbreytingar geta haft á þá og fjölskyldur þeirra, samkvæmt umhverfiskönnun Gallup sem var gerð í byrjun árs og verður kynnt á umhverfisráðstefnu Gallup í Hörpu 19. febrúar næstkomandi.

Þar kemur einnig fram að rúmlega þrír af hverjum fjórum hafa nokkrar eða miklar áhyggjur af hlýnun jarðar. Konur finna frekar fyrir miklum umhverfiskvíða en karlar, og yngra fólk frekar en eldra. Þeir sem hafa meiri menntun finna líka frekar fyrir miklum umhverfiskvíða en þeir sem hafa minni menntun.

Loks eru þeir sem kysu Pírata, Vinstri græn eða Samfylkinguna ef kosið væri til Alþingis í dag líklegri til að finna fyrir miklum umhverfiskvíða en þeir sem kysu aðra flokka. Þeir sem kysu Miðflokkinn eða Framsóknarflokkinn eru hins vegar ólíklegastir til að finna fyrir miklum umhverfiskvíða.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert