Yfir 20 stiga hiti mældist á Suðurskautslandinu

Frá Suðurskautslandinu.
Frá Suðurskautslandinu. AFP

Í fyrsta sinn frá upphafi mælinga hefur hiti á Suðurskautslandinu mælst yfir 20°C, en 20,75 stiga hiti mældist á Seymour-eyju rétt utan meginlands Suðurskautslandsins 9. febrúar.

Brasilíski vísindamaðurinn Carlos Chaefer, sem tók þátt í mælingunni, segir við AFP-fréttastofuna að slíkur hiti hafi aldrei áður mælst á þessum slóðum, en tekur mælingunni þó með fyrirvara, þar sem hún var stök mæling vísindamanna en ekki sjálfvirk reglubundin mæling.

Hlýtt hefur verið á Suðurskautslandinu undanfarið og í síðustu viku mældist nýtt hitamet, 18,3 gráður, á argentínskri veðurstöð á meginlandinu. Fyrra met var 17,5 gráður, sem kom fram á mælum sömu stöðvar árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert