„Við erum náttúrulega búin að vera að díla við þetta kórónustöff í fyrirtækinu síðan í janúar þegar þetta byrjaði í Kína og seinna Kóreu. Nú er Kínaskrifstofan að byrja aftur að vinna á skrifstofu okkar í Shanghai en síðustu tvær vikur hafa allir starfsmenn okkar á Vesturlöndum unnið heima,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP, sem án vafa er þekktast fyrir fjölspilunarleikinn EVE Online, í samtali við mbl.is í gærkvöldi.
Segir Hilmar aðgerðir kínverskra yfirvalda gegn kórónuveirunni einkum hafa lagst þungt á íbúa tveggja svæða. „Já, þetta var aðallega í Wuhan og Shanghai og skrifstofan okkar er í Shanghai svo við fundum auðvitað fyrir þessu snemma, þú getur rétt ímyndað þér,“ segir Hilmar þegar mbl.is innir hann eftir áhrifum faraldursins á tölvuleikjarisann CCP.
Notendafjöldi EVE hefur aukist svo mjög síðustu daga að Hilmar segir varla annað eins hafa þekkst. „Helgin hjá okkur núna var algjört met, 10.000 manns eru að skrá sig fyrir nýjum reikningi á dag,“ segir Hilmar og bætir því við að nú snúi margir gamlir notendur til baka til að endurnýja kynnin við aðra spilara.
„Við sjáum marga notendur koma til baka núna, til dæmis til þess að spjalla við aðra notendur gegnum spjallmöguleikann á EVE,“ segir Hilmar Veigar og bætir því við að tölvuleikurinn sé nánast lækning á þeim einmanaleika og einangrun sem heimsbyggðin nú glími við.
„Þannig er það bara, rannsóknir okkar á EVE-notendum benda til dæmis til þess að meðal-EVE-spilari eigi fleiri vini en þeir sem ekki spila,“ segir Hilmar og hlær dátt. „Núna flykkist fólk til baka inn í leikinn til þess að tengjast gömlum vinum aftur.
Þetta hefur bara gengið nokkuð vel hjá okkur, nú er verið að loka öllum Vesturlöndum og spilunin hefur rokið upp hjá okkur samhliða því. Þetta byrjaði fyrir svona viku og helgin núna var algjört met hjá okkur,“ segir Hilmar.
Hann segir hafa verið erfitt að greina vikuna á undan síðustu viku og hvort þar hafi eigin markaðssetning CCP átt hlut að máli. „Við höfum aukið það fé sem við verjum til markaðsmála samhliða þessu, auðvitað er það þannig í þessum bransa sem öðrum að þeir fiska sem róa en við höfum séð mjög sjáanlega aukningu í spilun síðan á sunnudaginn fyrir viku,“ segir framkvæmdastjórinn. „Nú sjáum við að meðaltali 10.000 manns skrá sig fyrir nýjum reikningi í leiknum á hverjum degi sem er mjög mikið, meðaldagur í fyrra var nærri því að vera 3.000 manns þannig að þetta er rúm þreföldun.
En hvernig gengur þá lífið í London þar sem Hilmar og eiginkona hans, Guðrún Elísabet Stefánsdóttir, eru búsett ásamt börnum sínum?
„Jú jú, þetta gengur ágætlega, Guðrún er skólastjórinn í heimaskólanum okkar,“ segir Hilmar og getur ekki varist hlátri þegar hann segir frá heimakennslu barna þeirra Guðrúnar sem núna er skólastjóri heimilisins.
„Þetta er bara svona og við tökum þessu eins og hverju öðru hundsbiti. Bretar sameinast í átakinu gegn veirunni, þessi þjóð stendur saman eins og einn maður. Auðvitað hefur þetta í för með sér breyttan lífsstíl fyrir mig,“ segir framkvæmdastjórinn sem dags daglega ver meiri tíma í Kína og Suður-Kóreu en í London, hvað þá á Íslandi.
„Já já, núna höldum við alla fundi hjá CCP bara gegnum fjarfundabúnað, mér finnst auðvitað mikið til þess koma að fá meiri tíma með konunni minni og ekki síst börnunum, þessi faraldur hefur sem betur fer sínar jákvæðu hliðar og þannig þurfum við bara að líta á hlutina, horfa á það sem gefur okkur meira,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri tölvuleikjaframleiðandans CCP, í samtali við mbl.is frá London í gærkvöldi.