Kórónuveirufaraldurinn er líklega aðeins sá fyrsti af mörgum faröldrum sem eiga eftir að herja á mannkynið á næstu árum og áratugum verði ekkert að gert.
Til þess að koma í veg fyrir það þarf að ráðast að rót vandans — ógnarhraðri náttúrueyðingu. Helstu sérfræðingar heims í líffræðilegri fjölbreytni segja aðeins eina dýrategund bera ábyrgð á kórónuveirufaraldrinum, og það séum við mennirnir.
Josef Settele, Sandra Díaz and Eduardo Brondizio leiddu viðamestu rannsókn sem gerð hefur verið á heilsu jarðarinnar og skiluðu niðurstöðum árið 2019, en þær bentu til þess að mannkynið væri í hættu vegna hnignunar vistkerfa jarðarinnar.
Þau segja þá faraldra sem upp hafa komið á undanförnum áratugum alla mega rekja til framferðis manna, ekki síst þegar hagur efnahagskerfisins sé settur ofar hagi náttúrunnar. Nauðsynlegt sé að læra af faraldrinum sem nú gengur yfir og grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að fleiri og hugsanlega enn skæðari faraldrar herji á mannkynið í framtíðinni.
Hömlulaus skógareyðing, skefjalaus útbreiðsla landbúnaðar, námugröftur og þróun innviða, sem og hagnýting villtra dýrategunda skapi kjöraðstæður fyrir útbreiðslu sjúkdóma.
Þessar aðgerðir skapi aðstæður þar sem menn komist í of mikið návígi við dýr, en þaðan komi 70% allra nýrra sjúkdóma sem greinist í mönnum. Til samans við þéttbýlisþróun og auknar samgöngur milli landa og heimsálfa geti meinlaus sjúkdómur í leðurblökum orðið að heimsfaraldri, sem valdi ómældri þjáningu og dauða, og sérfræðingarnir segja kórónuveirufaraldurinn líklega aðeins byrjunina.
„Framtíðarfaraldrar munu að öllum líkindum verða tíðari, breiðast hraðar út, hafa víðtækari efnahagsleg áhrif og draga fleiri til dauða ef við vöndum okkur ekki við ákvarðanatöku í dag.“