Hekluaska og loftslagsrannsókn

Aska sem barst frá þessu þekkta eldfjalli Íslands fyrir um …
Aska sem barst frá þessu þekkta eldfjalli Íslands fyrir um 27 þúsund árum myndaði öskulag. Það hefur bæðifundist í ískjörnum úr Grænlandsjökli og setlögum á hafsbotni. Hægt er að tímasetja þróunina út frá öskulaginu. mbl.is/RAX

Vísindamenn nota öskulag sem varð til við Heklugos fyrir nær 27 þúsund árum til viðmiðunar við rannsókn á skyndilegum loftslagsbreytingum sem urðu á norðurhveli jarðar á síðustu ísöld. Öskulagið finnst bæði í ískjörnum úr Grænlandsjökli og setlögum á hafsbotninum suðvestur af Íslandi. Þetta kemur fram í grein eftir Sunnivu Rutledal, við Háskólann í Bergen, á vefnum geoforskning.no. Hún er að rannsaka loftslag á norðurslóðum á síðustu ísöld.

Í greininni kemur m.a. fram að loftslagskerfið sé flókið og háð samspili margra þátta. Vandi vísindamanna sé að skilja þetta samspil og það geti hjálpað að rannsaka loftslagsbreytingar í fortíðinni. Mikilvægur liður í því er að finna fastan viðmiðunarpunkt í loftslagssögunni sem hægt er að ganga út frá.

Eldgos hafa orðið á Íslandi um milljóna ára skeið og spúð ösku upp í loftið sem oft hefur dreifst yfir mjög stór svæði. Öskulög finnast enn þar sem hún féll. Þar mynda öskulögin það sem kalla má loftslagsdagbækur eins og í setlögum á hafsbotni, botni stöðuvatna og djúpt í iðrum stórra jökla eins og Grænlandsjökuls.

Hitasveiflur á ísöld

Hópur loftslagsvísindamanna fór í rannsóknarleiðangra sumurin 2015 og 2016 til að safna sýnum úr setlögum á hafsbotninum sunnan og austan við Grænland, frá Grænlandssundi í norðri og suður í Labradorhaf. Setlagasýnin átti að nota til að rannsaka snöggar loftslagsbreytingar sem merki sáust um í ísborakjörnum úr Grænlandsjökli.

Ískjarnarnir benda til þess að á síðustu ísöld, fyrir u.þ.b 25-40 þúsund árum, kunni lofthiti á Grænlandi að hafa hækkað um 10-15°C á skömmum tíma, jafnvel ekki nema tveimur áratugum. Þessar hitasveiflur eru kenndar við Dansgaard-Oeschger (D/O sveifla).

Hliðstæðar loftslagsbreytingar

Í grein Rutledal segir að ef til vill séu D/O sveiflurnar eina þekkta hliðstæðan við loftslagsbreytingar á norðurslóðum í dag. Þess vegna geti þekking á D/O sveiflunum verið mikilvæg til að skilja afleiðingar loftslagsbreytinga sem nú eru að verða á þessum slóðum. Rannsóknir á tengslum breytinga á ástandi hafsins annars vegar og Grænlandsjökuls hins vegar kalla eftir því að fundinn verði sameiginlegur snertipunktur þessara náttúrufyrirbæra sem bæði geyma upplýsingar um loftslag fyrri tíma. Þar gegnir eldfjallaaska lykilhlutverki. Hún féll um leið bæði á jökulinn og í hafið. Fram kemur í greininni að ekki sé aðeins hægt að greina frá hvaða eldfjalli askan kom heldur oft úr hvaða eldgosi, því askan beri eins konar fingrafar eldfjallsins.

Í þessari rannsókn leituðu vísindamennirnir að öskulagi sem myndaðist fyrir nærri 27 þúsund árum við Heklugos. Aska úr gosinu hafði fundist í setlögum á hafsbotni austan við Ísland, í borkjarna úr Grænlandsjökli en ekki fyrr en nú með fullri vissu í setlögum hafsbotnsins suðvestur af Íslandi. Þar fannst öskulag sem var 5 mm þykkt og korn öskunnar voru 25-80 míkrómetra stór. Efnagreining staðfesti uppruna öskunnar úr Heklu.

Rutledal segir að nú sé hægt að rannsaka áhrif loftslagsbreytinga á stóru svæði í hafi og á landi og skera úr um hvort hafið breytist á undan lofthjúpnum eða hvort breytingarnar verða samtímis.

Sagan lesin úr ískjörnum

Sigfús J. Johnsen (1940-2013), eðlis- og jöklafræðingur, var einn af frumkvöðlum ískjarnaborana á Grænlandsjökli. Hann greiddi mörgum íslenskum vísindamönnum leið til þátttöku í borverkefninu og í rannsóknum á sögu veðurfars og eldgosa og eiginleikum jökulíss, að því er sagði í fréttabréfi Jöklarannsóknafélagsins 2010. Það ár var haldin alþjóðleg ráðstefna Sigfúsi til heiðurs í Háskóla Íslands (HÍ). Hann var heimsþekktur vísindamaður á sínu sviði og hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín.

Sigfús hóf ísrannsóknir sínar í samvinnu við Willi Dansgaard prófessor. Ískjarnaverkefnið á Grænlandsjökli gerði kleift að rekja veðurfarssögu norðurslóða um 100 þúsund ár aftur í tímann. Þá kom m.a. í ljós að fimbulvetur ísaldar var rofinn af um 25 mildari skeiðum, þ.e. D/O sveiflum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert