Fyrr í dag náðist sá áfangi í fyrsta sinn í sögunni að geimfar sent út í geim á vegum bandarísks einkafyrirtækis komst á leiðarenda að Alþjóðlegu geimstöðinni. Geimfarið festi sig við stöðina og geimfararnir, Bob Behnken og Doug Hurley, komust til þeirra þriggja sem fyrir voru í geimstöðinni.
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, sem jafnframt vann fyrir NASA um árabil, segir aðspurður að áfanginn sé mikill sigur fyrir Elon Musk, forstjóra SpaceX, sem sá um framkvæmd ferðarinnar. Eftir að flaugin fór að geimstöðinni flaug hún aftur niður til jarðar og lenti heil á húfi.
„Hann er nú búinn að sanna að eldflaugarnar hans geta farið út í geim og lent aftur, þó að einhvern tíma hafi það mistekist áður hjá honum,“ segir Ari. Eldflaugin sem flutti geimfaranna út í geim lenti aftur á pramma úti á sjó í dag.
„Það þýðir að SpaceX er fært um að framleiða flaugar sem eru bæði nógu áreiðanlegar til þess að fólk geti ferðast með þeim og að hægt er að lenda þeim aftur. Þetta er síðan allt hægt að gera á mun hagkvæmari hátt en áður var hægt,“ segir Ari. Þetta sé það sem Musk hafi staðið fyrir: Að leitast við að gera geimferðir ódýrari og sömuleiðis hefur hann sagst vilja koma fólki til Mars. Áfanginn í dag sé skref í rétta átt í báðum þeim markmiðum.
Ari segir þó að árangurinn í dag sé ekki nauðsynlega áfangi á leiðinni til þess að farnar verði borgaralegar ferðir út í geim. Fyrst og fremst hafi þessi ferð snúist um að SpaceX sé fært um að koma mönnuðum förum út í geim, en síðustu ár hefur NASA þurft að reiða sig á aðstoð erlendra ríkja eins og Rússa til að koma fólki út í geim.
SpaceX hefur verið að senda gervihnetti og vistir út í geim en ekki áður komið mönnuðum geimförum út í geim. Að þeir séu færir um það, eins og nú hefur sýnt sig, segir Ari að sé áfangasigur fyrir Bandaríkjamenn bæði í ofangreindu tilliti, að þurfa ekki aðstoð að utan, en einnig út frá hagkvæmnissjónarmiðum.
SpaceX getur sent mönnuð geimför út í geim með miklu hagkvæmari og ódýrari hætti en NASA hefur þurft að gera hingað til, sem þýðir að fjölga má ferðunum í framtíðinni.
Sem fyrr segir eru geimfararnir mættir til þeirra þriggja manna sem fyrir voru í stöðinni og munu þeir vera þar um óákveðinn tíma. Þeir fást við ýmiss konar rannsóknir á meðan þeir dveljast í stöðinni og segir Ari þær tengjast ólíkum fræðasviðum en meðal annars séu nýtt þau vísindalegu tækifæri sem felast í þyngdarleysinu í geimnum.