Veirusýking er forsenda kórónuveirusjúkdómsins en eins og í tilfelli margra smitsjúkdóma geta erfðaþættir tengst hluta breytileikans í smitnæmi, alvarleika sýkingar og dánartíðni, auk annarra þátta. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Vísindavefjarins við spurningunni geta erfðaþættir tengst mismunandi næmi fyrir sýkingu veirunnar sem veldur COVID-19 eða því hversu alvarleg veikindi verða?
Í ljós hefur komið að veiran SARS-CoV-2 leggst misjafnlega alvarlega á fólk. Dæmi um þetta kemur fram í enskri rannsókn sem sýndi að karlar eru í meiri hættu en konur, og að dánartíðni hækkar mikið með aldri.
Þótt erfðaþættir geti skipt máli er ljóst að aldur hefur veigameiri áhrif á dánartíðni vegna COVID-19.
„Ef við ímyndum okkur tvo karla með nákvæmlega sama erfðamengi, annar tvítugur en hinn sjötugur, þá er sá síðarnefndi í rúmlega tífalt meiri áhættu en sá yngri. Einnig eru vísbendingar um að dánartíðni sé breytileg eftir uppruna fólks, en þau áhrif eru veik og líklegt að þau skýrist að umtalsverðu leyti af fátækt, félagslegum þáttum og mismunandi aðgengi að heilbrigðisþjónustu,“ segir í svari Arnars Pálssonar, erfðafræðs og prófessor í lífupplýsingafræði við Háskóla Íslands.