Ný köngulóategund nefnd eftir Thunberg

Svona lítur veiðikóngulóin Thunberga út, en nýuppgötvaða tegundin er nefnd …
Svona lítur veiðikóngulóin Thunberga út, en nýuppgötvaða tegundin er nefnd í höfuðið á Gretu Thunberg loftslagsaðgerðasinna. AFP

Afrekalisti sænska lotfslagsaðgerðasinnans Gretu Thunberg er orðinn ansi langur þrátt fyrir ungan aldur. Nú getur manneskja ársins að mati TIME tímaritsins bætt því á listann að heil tegund köngulóa hefur verið nefnd í höfuðið á henni. 

Thunberga gen. nov. er heiti á nýrri tegund veiðiköngulóa sem þýski áttfætlufræðingurinn Peter Jager uppgötvaði nýverið. Jager nefndi tegundina í höfuðið á Thunberg, ekki síst til að heiðra framlag hennar til baráttunnar gegn loftslagsvánni. Sjálfur hefur Jager tekið þátt í nokkrum loftslagsmótmælum. Mótmælt var víða um heim í dag og er það í 95. sinn sem vikuleg loftslagsmótmæli fara fram að frumkvæði Thunberg. 

Greta Thunberg hefur staðið fyrir loftslagsmótmælum víðs vegar um heiminn …
Greta Thunberg hefur staðið fyrir loftslagsmótmælum víðs vegar um heiminn í tæp tvö ár. AFP

Jager vill einnig vekja athygli á þeim áhrifum sem loftslagsbreytingar hafa á heimkynni veiðiköngulóa á Madagaskar, þar sem hann uppgötvaði nýju tegundina. Thunberga-veiðiköngulær eru frábrugðnar öðrum veiðiköngulóm hvað varðar stöðu augnanna og þá hafa þeir einstakar doppur á bakinu. Veiðiköngulær er ein af fáum köngulóartegundum sem spinna ekki vef heldur stunda þær veiðar til að lifa af og nærast.  

Jager hefur uppgötvað nokkrar nýjar köngulóategundir á starfsferli sínum og þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann nefnir nýja tegund eftir frægri manneskju en hann hefur til að mynda nefnt tegund veiðiköngulóa í Suðaustur-Asíu eftir sjálfum David Bowie.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert