Nýtt lyf dregur úr dánarlíkum

AFP

Dexamethasone, ódýrt og algengt steralyf, virðist reynast gagnlegt til að draga úr dánarlíkum sjúklinga sem eru alvarlega veikir af kórónuveirunni. 

Lyfið var hluti af gríðarstórri rannsókn þar sem lyf sem eru þegar til eru prófuð til meðferðar við veirunni. 

Notkun lyfsins dregur úr dánarlíkum sjúklinga á öndunarvélum um þriðjung. Þá dregur notkun lyfsins úr dánarlíkum sjúklinga í súrefnisgjöf um fimmtung. 

Eftir því sem fram kemur á BBC hefði verið hægt að bjarga 5.000 mannslífum í Bretlandi ef lyfið hefði verið tekið til notkunar strax frá upphafi faraldursins þar í landi. Þá gæti lyfið reynst gagnlegt í fátækari ríkjum í Asíu og Afríku þar sem þungamiðja faraldursins er nú. 

19 af hverjum 20 einstaklingum sem smitast af kórónuveirunni ná sér án innlagnar á sjúkrahús. Af þeim sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús ná sér flestir, en fjölmargir þurfa á öndunarvélum eða umfram súrefni að halda og virðist lyfið koma sér vel fyrir þá sjúklinga. 

Lyfið hefur þegar verið notað til að draga úr bólgum vegna annarra sjúkdóma og tilfella og virðist draga úr skaðanum þegar ónæmiskerfi sjúklinga fer í yfirgír við að berjast við kórónuveiruna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert