Z-kynslóðin svonefnda, fólk fætt eftir 1996, er tortryggin gagnvart samfélagsmiðlum ef marka má nýja alþjóðlega rannsókn frá samskiptafyrirtækinu Dentsu Aegis. Fjöldi fólks á aldrinum 18-24 ára hefur samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eytt aðgangi sínum á samfélagsmiðlum á síðustu mánuðum.
Í umfjöllun Horizont um rannsóknina segir að ástæðan fyrir því að unga fólkið sé að eyða samfélagsmiðlum sé annars vegar óttinn við að verið sé að misnota gögn frá þeim og hins vegar neikvæð áhrif miðlanna á andlega heilsu þeirra og félagslíf.
Fólk á þessum aldri ólst margt upp þegar samfélagsmiðlar voru þegar orðnir snar þáttur í lífi mannsins en þrátt fyrir það er afstaða hópsins nú gagnrýnni en áður gagnvart fyrirbærinu.
Afstaða 5.000 manns víða um heim var könnuð og 17% kváðust hafa eytt aðgangi að samfélagsmiðli. Þriðjungur leitast við að takmarka tímann sem hann ver á samfélagsmiðlum og 43% reyna að gefa upp minni gögn.
Oftast var ástæðan fyrir þessari hegðun sögð óttinn við að gögnin yrðu misnotkuð. Rúmlega helmingur fólks kvaðst ekki treysta tæknifyrirtækjunum og 37% sögðu þar að auki að þau teldu miðlana hafa slæm áhrif á stjórnmálaumræðu í heimalandi sínu.
Einnig töldu fjölmargir miðlana hafa neikvæð áhrif á geðheilsu sína og félagslíf, 59% á Spáni, 55% í Ástralíu og 53% í Frakklandi.
Vonarglætan í málinu er sú, segir Horizont, að samfélagsmiðlaneytendur framtíðarinnar, þ.e. þessi hópur, eru kröfuharðir. 72% unga fólksins trúa að umrædd fyrirtæki verði á næstu árum neydd til að gera hreint fyrir sínum dyrum og gefa upp hvernig þau nota gögnin.