Töfralyf gætu orðið að veruleika

Rannsóknir á psilocíbin, virka efninu í ofskynjunarsveppum, lofa afar góðu …
Rannsóknir á psilocíbin, virka efninu í ofskynjunarsveppum, lofa afar góðu og getur efnið t.d. hjálpað fólki að hætta að reykja. Ljósmynd/Wikipedia.org

Ímyndum okkur að til væri lyf sem vinnur gegn kvíða, þunglyndi og áfallastreituröskun, hjálpar fólki að vinna bug á fíknivanda og veldur því jafnvel að heilbrigðu fólki líður betur, er ánægðara með líf sitt og á í betri samskiptum við fjölskyldu og vini. Ímyndum okkur einnig að lyfið sé ekki ávanabindandi og það þurfi bara að taka það einu sinni eða tvisvar og þannig geti viðkomandi breytt lífi sínu til hins betra í langan tíma, jafnvel að eilífu.

Þetta lyf gæti orðið að veruleika ef rannsóknum á vitundarvíkkandi efnum, stundum kölluð ofskynjunarlyf, fer sem fram horfir. Rannsóknir á inntöku heilbrigðs fólks, fólks sem glímir við kvíða vegna krabbameinsgreiningar og reykingamanna síðustu árin hafa lofað góðu. Þá eru dæmi um að lyfin hafi hjálpað fólki sem glímir við áfallastreituröskun, þunglyndi, Alzheimer’s og lystarstol og eru rannsóknir á veg komnar á því sviði.

Ótrúlegar niðurstöður

Þar til í upphafi síðasta áratugar voru allar rannsóknir á vitundarvíkkandi efnum bannaðar. Átti það við um bæði LSD og psilocíbin en einnig efni eins og N,N-Dimethyltryptamín (DMT) sem finnst í ayahuasca, drykknum sem hefur verið drukkinn meðal frumbyggja Suður-Ameríku í að minnsta kosti þúsund ár. Þá var meskalín, virka efnið í kaktusnum peyote sem frumbyggjar Norður-Ameríku hafa notað í þúsundir ára, einnig bannað.

Rannsóknir á psilocíbin hófust aftur fyrir tæplega 20 árum og hafa vaxið í umfangi ár frá ári síðan. Roland Griffiths hjá Johns Hopkins-háskólanum hefur farið fyrir rannsóknunum og gaf hann ásamt kollegum sínum út vísindagrein úr rannsókn þeirra árið 2006. Í rannsókninni var heilbrigðum einstaklingum gefinn stór skammtur af efninu í þægilegum aðstæðum með meðferðaraðila sér við hlið. Ef hræðsla eða kvíði gerði vart við sig voru meðferðaraðilarnir til staðar til að róa fólk niður.

Þátttakendur sögðu frá viðvarandi góðum áhrifum af inntökunni og sögðu jafnvel frá töfrandi eða trúarlegum upplifunum. Helmingur fólks sagði sex mánuðum eftir inntöku psilocíbins að upplifunin væri sú mikilvægasta í lífi þeirra og 80% ein af fimm mikilvægustu. Þá sögðust 90% ánægðari með líf sitt, höfðu breytt hegðun sinni og bætt samskipti. Þegar fólk í nánasta umhverfi þátttakendanna er spurt tekur það undir breytingarnar.

Í rannsóknum á krabbameinssjúklingum sem upplifa þunglyndi vegna yfirvofandi dauðadags líður 92% þátttakenda mjög vel eftir fimm vikur og 75% eftir sex mánuði. Það eru tölur sem sjást ekki í geðlækningum. Margir þátttakenda sögðust ekki hræðast dauðann lengur.

Í rannsóknum á reykingafólki tókst 80% að halda sig frá reykingum næstu sex mánuði eftir inntöku psilocíbins. Það er margfalt betri árangur en nokkurt annað sem notað er gegn nikótínfíkn.

Nánar er fjallað um vitundarvíkkandi efni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert