Fyrsta lyfið sem gæti snúið við hrörnun af völdum Alzheimers-sjúkdómsins er í þróun í Bandaríkjunum. Lyfið hefur fengið flýtimeðferð hjá bandarískum eftirlitsaðilum og gæti verið komið í almenna notkun eftir sex mánuði. Breska blaðið Telegraph greinir frá.
Lyfið gengur undir nafninu Aducanumab og hefur verið í þróun um nokkurt skeið. Prófanir á Alzheimers-sjúklingum hafa sýnt að þeir taka framförum í málnotkun og getu til að halda utan um stað og stund, auk þess sem hægist á minnistapi.
Árni Sverrisson, formaður Alzheimersamtakanna, segir að bjartsýni ríki vegna frétta af lyfinu, en prófanir sýna að sjúklingar hafa tekið framförum í málnotkun og getu til að átta sig á stað og stund, auk þess sem hægist á minnistapi.
Árni segir að lengi hafi verið beðið eftir byltingu í þessum efnum en þau lyf sem nú eru notuð geta aðeins hægt á ferli sjúkdómsins hjá sumum sjúklingum, ekki snúið honum við. Lyfið hefur fengið flýtimeðferð hjá bandarískum eftirlitsstofnunum og er vonast til að það komi á markað eftir hálft ár, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Þau lyf sem nú eru notuð við Alzheimer geta aðeins dulið einkenni sjúkdómsins í stað þess að hægja á þróun hans. Rannsóknir benda hins vegar til þess að nýja meðferðin, sem leysir úr svokölluðum elliskellum (e. senile plaques) heila, verði sú fyrsta til að stöðva framvindu sjúkdómsins. Sérfræðingar segja að lyfið gæti einkum nýst sjúklingum sem sýna einkenni heilabilunar á fyrstu stigum og komið í veg fyrir að sjúkdómurinn nái að hafa umtalsverð áhrif á líf þeirra.
Alzheimer er algengasta tegund heilabilunar. Talið er að um 3-4 þúsund Íslendingar séu haldnir sjúkdómnum en opinberar tölur liggja ekki fyrir þar sem sjúkdómurinn hefur ekki verið meðal þeirra sem embætti landlæknis hefur haldið sérstaka skrá um. Það stendur þó til, því á síðasta þingi voru samþykkt lög þess efnis að sjúkdómnum skyldi bætt á listann.