Facebook gæti þurft að loka í Evrópu

Barátta Facebook og evrópskra eftirlitsstofnana hefur staðið í að verða …
Barátta Facebook og evrópskra eftirlitsstofnana hefur staðið í að verða áratug. AFP

Facebook hefur varað við því að fyrirtækið gæti þurft að hætta starfsemi í Evrópu ef persónuvernd Írlands, þar sem evrópskar höfuðstöðvar eru, framfylgir dómi Evrópudómstólsins um takmörkun á gagnaflutningi til Bandaríkjanna.

Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í júlí, þar sem ekki þótti sýnt að Facebook tryggði með nægjanlegum hætti að upplýsingarnar enduðu ekki í fórum bandarískra njósnastofnana. Guardian greinir frá.

„Ef til þess kemur að algjört bann á gagnaflutning [Facebook] tekur gildi er ekki ljóst hvernig fyrirtækið á að geta boðið upp á þjónustu Facebook og Instagram í Evrópusambandinu,“ segja fulltrúar Facebook í  skjali sem liggur fyrir dómi í Dublin þar sem tekist er á um hvernig írskum stjórnvöldum beri að túlka dóm Evrópudómstólsins.

Fyrirtækið hefur neitað því að um hótun sé að ræða, yfirlýsingin sé einfaldlega lýsing á raunveruleikanum. „Facebook er ekki að hóta því að loka í Evrópu,“ segir Yvonne Cunnane, talsmaður fyrirtækisins.

Fáir tækju enda slíka hótun trúanlega, en ætla má að mikið þyrfti að ganga á áður en fyrirtækið ákvæði að hætta starfsemi á jafnstórum og arðbærum markaði. Tekjur Facebook í Evrópu námu um 14 milljörðum evra (2.250 ma.kr.) á síðasta ári, yfir 99% með sölu auglýsinga.

Nick Clegg, aðstoðarforstjóri Facebook og fyrrverandi varaforsætisráðherra Bretlands. Hann segir …
Nick Clegg, aðstoðarforstjóri Facebook og fyrrverandi varaforsætisráðherra Bretlands. Hann segir að lokun fésbókar í Evrópu hefði herfileg áhrif á evrópsk fyrirtæki sem reiða sig á þjónustu Facebook. AFP

Löng saga dómsmála

Barningur fésbókar og evrópskra dómstóla hefur staðið í að verða áratug. Árið 2011 kvartaði austurrískur lögfræðingur, Max Schrems, til Persónuverndar Írlands vegna framferðis fyrirtækisins. 

Þær umkvaranir fengu byr undir báða vængi tveimur árum síðar þegar ljóstrað var upp um Prism-áætlunina, stórtækt eftirlitskerfi Bandarísku njósnastofnunarinnar (NSA), sem gaf stofnuninni greiðan aðgang að kerfum Google, Facebook, Apple og annarra bandarískra netfyrirtækja. Að endingu fór krafa Schrems fyrir Evrópudómstólinn.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að vegna Prism-áætlunarinnar væri samkomulag milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um gagnaflutning, nefnt Örugg höfn (Safe Harbour), ógilt.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagðist þá í gerð nýs samkomulags um gagnaflutning við Bandaríkinn, nefnt öryggisskjöldurinn, en því samkomulagi hafnaði dómstóllinn í júlí á þessu ári, eins og fyrr var greint frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert