Fljúgandi leigubílar næsta vor

Tveir menn með handfarangur komast í flugtaxa VoloCity í einu. …
Tveir menn með handfarangur komast í flugtaxa VoloCity í einu. Saman mega þeir ekki vega meira en 200 kíló með farangrinum. AFP

„Fljúgandi leigubílar“ munu hefja sig til flugs frá flugvelli norður af París næsta vor. Munu þeir hafa gríðarlega miklu hlutverki að gegna um það leyti sem ólympíuleikarnir 2024 fara fram í borginni en þá mun fjöldi ferðamanna verða meiri en venjulegt er, en um 80 milljónir ferðamanna heimsækja París ár hvert.

Þróunar- og æfingaflug flugtaxanna sem bera nafnið VoloCity fer fram frá flugvellinum í Pontoise-Cormeilles-en-Vexin norðvestur af borginni.

Flugtaxarnir eru smíðaðir í Þýskalandi hjá fyrirtæki að nafni Volocopter. Minna þeir helst á risastóra flugdróna og ganga fyrir rafmagni. Geta þeir hafið sig til flugs og lent á sama blettinum aftur eftir æfingaflug á stórborgarsvæðinu.

Samstarfsaðilar um flugtilraunirnar eru m.a. fyrirtækið sem rekur jarðlestir Parísarborgar (RATP) og rekstrarfélag Parísarflugvallanna, ADP. Í yfirlýsingu segjast þeir hafa gert allt sitt til að upphaf þessa nýja samgöngumáta geti stutt við þær samgöngur sem fyrir eru, bæði til farþega- og vöruflugs. „Að teknu tilliti til Ólympíuleikanna og heimsleika fatlaðra 2024 gefst sérdeilis gott tækifæri til þátttöku heils samgöngukerfis og gæti Parísarsvæðið þar með tekið forystu í heimsmarkaði fyrir nýja fararskjóta til ferða á borgarsvæðum.“

Flugtilraunirnar koma til með að standa og falla með afstöðu íbúanna, öryggisreglum og lögum um flugstarfsemi. Á fyrri helmingi næsta árs, 2021, verður gengið frá samningum um lendingarstaði, hleðslustöðvar og merkingar á jörðu niðri vegna tilraunanna. „Lendingar og flugtök, svo og að leggja flugbílnum í stæði, verða prófuð í raunverulegu loftrými í júní 2021. Hið sama á við um starfsemi kringum bílinn á lendingarsvæði sínu, hvort sem það er viðhaldsvinna eða hleðsla rafgeymanna,“ segja aðstandendur flugsins.

AFP

VoloCity-flugbíllinn er búinn 18 smáþyrlum og níu rafgeymispökkum. Bíllinn getur flutt tvo farþega með handfarangur en heildarþungi þeirra beggja með farangri má að hámarki vera 200 kíló.

Fullklárt 2030

Flughraði bílsins er 110 km/klst. í 400 til 500 metra hæð, eða 13-16 hundruð fet. Þannig verður flugdrægi bílsins 35 kílómetrar.

Forstjóri Volocopter, Fabien Nestmann, segir fyrirtækið gera sér vonir um að fá fullt lofthæfisskírteini fyrir flugbílinn frá Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins innan tveggja til þriggja ára. „Við viljum geta sýnt möguleika hans fyrir Ólympíuleikana 2024,“ segir forseti sýslunnar sem nær yfir stór-Parísarsvæðið, „Ile de France“.

Hermt er að það gæti tekið áratug að byggja upp kerfi flugtaxanna í heild. „Dagurinn sem þú getur keypt þér miða í taxana á netinu er líklega nær árinu 2030,“ segir forstjóri RATP, Catherine Guillouard.

„Þegar til lengri tíma er litið munum við geta bætt inn örsmáum þyrlupöllum hér og þar á borgarsvæðinu en það fer eftir því hvað íbúarnir vilja leyfa. Við þurfum samþykki þeirra og hávaðinn sem flugbílarnir koma til með að gefa frá sér verður lykilatriði,“ bætti Guillouard.

Í sókninni til minni bílamengunar og minni umferðarhnúta hefur hugmyndin um flugbíla hlotið góðar undirtektir um heim allan.

Volocopter hefur þegar prófað og sýnt flugbíl sinn víða um heim. Var Singapúr í október í fyrra valið sem vettvangur fyrsta prufuflugs á miðborgarsvæði stórborga.

Nokkur önnur fyrirtæki eru að vinna að og þróa samskonar verkefni, þar á meðal Boeing, Airbus, Toyota og Hyundai.

Í nýliðnum september sýndi japanskt fyrirtæki að nafni SkyDrive mannað átta þyrla smáfar. Flaug það um fótboltavöll í fyrstu flugtilraunum sínum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. október. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert