Getur haft áhrif á gáttatif og -flökt

Efni sem fylgja mengun frá umferð voru skoðuð í rannsókninni.
Efni sem fylgja mengun frá umferð voru skoðuð í rannsókninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Niðurstöður meistararitgerðar frá læknadeild Háskóla Íslands gefa til kynna að skammtímahækkun á styrk köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) tengist bráðakomum á spítala vegna hjartasjúkdóma, sérstaklega vegna gáttatifs, gáttaflökts og annarra hjartsláttartruflana. Þetta mun vera fyrsta rannsóknin á Íslandi sem finnur samband milli loftmengunar og hjartsláttartruflana.

Sólveig Halldórsdóttir.
Sólveig Halldórsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Sólveig Haldórsdóttir er höfundur ritgerðarinnar og var markmið rannsóknarinnar að meta samband skammtíma hækkunar á umferðarmengun við bráðakomur á spítala vegna hjartasjúkdóma, öndunarfærasjúkdóma og heilablóðfalla. Gögn frá 12 ára tímabili, 2006-2017, voru skoðuð. Á þeim tíma voru 9.500 komur á Landspítalann vegna gáttatifs og gáttaflökts, en sumir einstaklinganna komu oftar en einu sinni.

Sterkara samband hjá konum

Sólveig segir að sterkara samband hafi verið hjá konum heldur en körlum. Sterkasta sambandið hafi fundist milli aukins styrks köfnunarefnisdíoxíðs og koma á spítala vegna gáttatifs og gáttaflökts hjá konum yngri en 70 ára. Í kjölfar 10 míkrógramma hækkunar á köfnunarefnisdíoxíði hafi verið 11% meiri líkur á að konur í þessum hópi kæmu samdægurs á spítala vegna gáttatifs eða gáttaflökts og 7% meiri líkur á að þær kæmu daginn eftir á spítala vegna gáttatifs og gáttaflökts. Hjá eldri konum hafi verið 4% meiri líkur á komum vegna gáttatifs og gáttaflökts þegar köfnunarefnisdíoxíð hafði hækkað um 10 míkrógrömm daginn áður. Einnig hafi fundist marktæk aukning í komum vegna annarra hjartsláttartruflana.

Umferðarmengunarefnin sem voru skoðuð í rannsókninni voru köfnunarefnisdíoxíð, gróft svifryk, fínt svifryk og brennisteinsdíoxíð. Leiðrétt var fyrir áhrifum hitastigs, rakastigs og brennisteinsvetnis. Brennisteinsvetni er efni sem einkum berst til höfuðborgarsvæðisins frá jarðvarmavirkjununum á Hellisheiði og Nesjavöllum. Sólveig segir að marktækar niðurstöður hafi einnig fundist fyrir tengsl annarra mengunarefna og bráðakoma á spítala, en þau sambönd hafi verið veikari og ekki sýnt ákveðið mynstur eins og hvað varðar köfnunarefnisdíoxíð.

Neikvæð áhrif á lýðheilsu

Í útdrætti ritgerðarinnar segir að loftmengun sé talin eitt helsta umhverfisvandamál heimsins í dag. Niðurstöðurnar bendi til neikvæðra áhrifa loftmengunar á lýðheilsu Íslendinga. Á Íslandi séu loftgæði yfirleitt mikil en þó geti mælst mengun yfir heilsuverndarmörkum í þéttbýli. Fyrri rannsóknir hafi sýnt samband milli loftmengunar í Reykjavík og neikvæðra heilsufarsáhrifa.

Sólveig er hjúkrunarfræðingur í grunninn og útskrifast sem umhverfis- og auðlindafræðingur frá HÍ 23. október og hefur nýlega hafið störf á Umhverfisstofnun. Hún og leiðbeinendur hennar í meistaraverkefninu, þau Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir og Vilhjálmur Rafnsson, stefna að því að birta niðurstöður rannsóknarinnar í erlendu ritrýndu vísindariti.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. október. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert