Getur haft alvarleg áhrif á heila

Heilablóðföll hafa einnig komið fram eftir vægari veikindi, meðal annars …
Heilablóðföll hafa einnig komið fram eftir vægari veikindi, meðal annars hjá ungu og hraustu fólki, en það er sem betur fer sjaldgæft segir Jón Magnús Jóhannesson, deildarlæknir á Landspítalanum um áhrif Covid-19 á heilann. AFP

Strax í byrjun faraldurs Covid-19 (sem orsakast af kórónuveirunni SARS-CoV-2) kom í ljós að sjúkdómurinn getur haft áhrif á miðtaugakerfið, þar með talið heilann. Meðal þess eru heilablóðföll og jafnvel ungt og hraust fólk hefur fengið heilablóðfall af völdum Covid-19. Þetta kemur fram í svari Jóns Magnúsar Jóhannessonar, deildarlæknis á Landspítalanum, á Vísindavef Háskóla Íslands.

Kínversk rannsókn á rúmlega 200 inniliggjandi sjúklingum með COVID-19 sýndi að um þriðjungur var með einkenni frá miðtaugakerfi, meðal annars svonefnda óáttun (e. disorientation - hugtakið vísar til þess að fólk getur villst á stöðum sem það ætti að þekkja vel) og bráða sjúkdóma í heilaæðum (e. acute cerebrovascular diseases).

„Erfiðlega hefur hins vegar gengið að komast nákvæmlega að orsökum þessara einkenna, það er hvort þau eru bein afleiðing COVID-19 eða tengjast frekar almennt bráðum veikindum sem krefjast innlagnar á gjörgæslu.

Þó er vitað að í alvarlegum tilfellum hefur COVID-19 sérstaklega mikla tilhneigingu til að auka storkuhættu í æðakerfi líkamans. Það getur haft margvíslegar afleiðingar í för með sér, meðal annars myndun blóðsega sem geta dreifst víða um líkamann.

Slíkir blóðsegar geta stíflað æðar sem liggja til heila og minnkað blóðflæði þangað - að lokum getur svæðið sem æðin nærir dáið og valdið varanlegum skaða á heila. Þetta kallast blóðþurrðardrep í heila (e. cerebral infarction) og getur orsakað bráða truflun á starfsemi miðtaugakerfisins, það er heilablóðfall (e. stroke).

Þótt þessi fylgikvilli sé mest áberandi í alvarlegum tilfellum COVID-19 hafa heilablóðföll einnig komið fram eftir vægari veikindi, meðal annars hjá ungu og hraustu fólki, en það er sem betur fer sjaldgæft,“ segir í svari Jóns Magnúsar.

COVID-19 getur einnig valdið ástandi sem líkist því sem kallast óráð (e. delirium). Orsakavaldurinn er líklegast starfræn truflun á virkni miðtaugakerfisins og er í raun mögulegur fylgifiskur allra alvarlegra veikinda. Eldra fólk og langveikir eru sérstaklega í hættu hvað þetta varðar.

„Í örfáum tilfellum hafa verið merki um bólgu í heilanum sjálfum, svokölluð heilabólga (e. encephalitis). Vegna þessa hafa komið upp vangaveltur um hvort veiran SARS-CoV-2 geti sýkt heilavefinn sjálfan og valdið þar skaða. Til þessa hefur þó ekki verið sýnt fram á slíkt og því eru sjaldgæf tilfelli heilabólgu líklegast frekar óbein afleiðing COVID-19, mögulega vegna skerðingar á súrefnisflutningi um líkamann, mikillar bólgu í líkamanum eða dreifðrar segamyndunar í æðakerfi heilans.

Loks ber að nefna breytingu á lyktar- og bragðskyni sem eru algeng einkenni COVID-19 og sjást í allt að 60% tilfella. Talið er líklegast að þessi einkenni komi fram vegna bólgu í slímhúð nefholsins. Í slímhúðinni eru taugaendar sem senda lyktarskilaboð áfram til lyktarklumbu (e. olfactory bulb – það svæði í heilanum sem vinnur úr lyktarboðum) en mjög stutt er á milli nefslímhúðarinnar og lyktarklumbunnar. Viss gögn benda til þess að SARS-CoV-2 geti haft bein áhrif á lyktarklumbuna og meira að segja sýkt frumur á því svæði. Þetta eru hins vegar enn sem komið er aðeins tilgátur,“ segir ennfremur á Vísindavef Háskóla Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert