Segir líkur á eðlilegu lífi næsta vetur

AFP

Áhrif nýs bóluefnis við Covid-19 munu skila sér næsta sumar og samfélagið ætti að vera komið í eðlilegar skorður næsta vetur að sögn dr. Ugur Sahin, stofnanda BioNTech. 

Rannsóknir á nýju bóluefni sem er í sameiginlegri þróun hjá lyfjafyrirtækinu Pfizer og líftæknifyrirtækinu BioNTech hafa lofað mjög góðu. 

Sahin telur að virkni bóluefnisins eigi eftir að leiða til þess að samfélagið verði komið í eðlilegar horfur næsta vetur. 

„Ég hef mikla trú á því að smit milli fólks minnki með svona virku bóluefni – kannski ekki 90% en mögulega 50% – en við ættum ekki að gleyma því að jafnvel það gæti leitt til gífurlegrar fækkunar í útbreiðslu faraldursins,“ sagði Sahin við BBC. 

Eftir að niðurstöður úr rannsóknum á bóluefninu voru kynntar sagði John Bell, prófessor við Oxford-háskóla, að hann hefði trú á því að lífið yrði komið í eðlilegt horf með vorinu. 

Sahin telur aftur á móti að það eigi eftir að taka lengra tíma. Hann segir að vonir standa til þess að 300 milljón skammtar af bóluefninu hafi verið afhentir fyrir apríl 2021. Það verði ekki fyrr en þá að bóluefnið fari að hafa áhrif á útbreiðslu faraldursins. 

„Næsta sumar mun hjálpa okkur af því að smitstuðlar munu lækka um sumarið og það sem er algjörlega nauðsynlegt er að við náum að bólusetja hátt hlutfall fyrir næsta haust eða vetur,“ sagði Sahin. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert