Bóluefni Pfizer með 95% virkni

Pfizer tilkynnti um virkni efnisins í dag.
Pfizer tilkynnti um virkni efnisins í dag. AFP

Lyfjaframleiðandinn Pfizer segir bóluefni sitt hafa 95% virkni og að því fylgi engar alvarlegar aukaverkanir.

Þetta tilkynnti fyrirtækið í dag en um er að ræða fyrsta sinnið í heiminum sem upplýst er um heildarniðurstöður af síðasta stigi bóluefnaprófana við kórónuveirunni.

94% virkni í eldri einstaklingum

Dagblaðið New York Times greinir fyrst miðla frá þessum tíðindum. Í umfjöllun blaðsins segir að gögn Pfizer sýni að bóluefnið komi í veg fyrir bæði mild og alvarleg tilfelli Covid-19 sjúkdómsins, sem veiran veldur.

Í eldri einstaklingum hafi þá mælst 94% virkni, en þeir hafa yfirleitt verið viðkvæmari fyrir veirusmiti og líklegri til að þróa með sér alvarleg einkenni sjúkdómsins. Þá hefur áður reynst erfitt að þróa bóluefni sem eldri einstaklingar bregðast vel við.

Sækja um neyðarheimild

Pfizer, sem þróaði bóluefnið í samstarfi við fyrirtækið BioNTech, segist munu sækja um neyðarheimild til notkunar efnisins hjá bandaríska lyfjaeftirlitinu, FDA, innan nokkurra daga.

Ljóst er að með þessu er einnig slegið met í þróun bóluefna, sem jafnan tekur mörg ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert