Íslenskir piltar verða oftar utanveltu í skólakerfinu en stúlkur og þegar komið er í háskóla eru þeir aðeins tæpur þriðjungur nemenda. Hermundur Sigmundsson og Viðar Halldórsson færa rök að því í grein sinni að slök lestrarfærni gæti verið steinn í götu íslenskra pilta þegar þeir vaxa úr grasi og haft víðtækari og varanlegri áhrif fyrir einstaklinga og samfélag en virðist í fyrstu:
Því er erfitt að svara með afgerandi hætti. Þó er ýmislegt sem bendir til þess að íslenskir piltar eigi undir högg að sækja á fleiri sviðum heldur en skólakerfinu hér á landi. Piltar eru til að mynda líklegri en stúlkur til að nota ólögleg vímuefni, beita ofbeldi og vera gerendur og þolendur eineltis. Opinberar tölur sýna einnig að ungir piltar eru mun líklegri heldur en stúlkur til að taka eigið líf, og eru sjálfsvíg algengasta dánarorsök ungra karlmanna hér á landi. Enn fremur sýna opinberar tölur að ungir karlmenn eru mikill meirihluti fanga á Íslandi, þar sem um 90% fanga eru karlar. Hvernig sem á það er litið þá má halda því fram að staða ungra karlmanna hér á landi er áhyggjuefni.
Félagsfræðingurinn C. Wright Mills gerði sannfærandi grein fyrir því, í frægu grundvallarriti sínu í félagsfræði, The Sociological Imagination, hvernig persónuleg vandamál einstaklinga mætti oft og tíðum frekar skilgreina sem almenn málefni og úrlausnarefni frekar en vandamál einstaklinga (e. personal troubles, public issues). Það er, að við lítum gjarnan á vandamál einstaklinga sem einmitt vandamál einstaklinga og gerum okkur því ekki grein fyrir því hvernig vandamál fjölda einstaklinga eiga sér rætur í félagslegri formgerð samfélagsins sem mótar hugmyndir, færni og tækifæri heilu kynslóðanna. Því er ekki hægt að líta á vandamál ungra karlmanna hér á landi sem einungis vandamál þeirra einstaklinga sem í hlut eiga, heldur liggur kjarni vandans í ytri formgerð samfélagsins sem með einhverjum hætti hefur brugðist ungum piltum á undanförnum misserum. Það virðist þannig vera eitthvað að í sjálfu kerfinu.
En kann það að vera að margþættur vandi ungra karlmanna hér á landi, sem lýst er hér að ofan, kunni að stafa af erfiðleikum þeirra til að finna sig í skólakerfinu á sínum uppvaxtarárum? Kann það til dæmis að vera að bág lestrarkunnátta íslenskra pilta grafi undan sjálfstrausti, sjálfsmynd, skilningi, víðsýni, þroska og tækifærum þeirra sem ekki ná valdi á lestri á barnsaldri? Kann að vera að þessar takmarkanir pilta hafi svo jafnvel þær afleiðingar síðar meir að piltarnir verði smátt og smátt utanveltu í samfélaginu, finni sig ekki í hinni hefðbundnu vegferð fjöldans og sæki því í einhvers konar flótta frá hefðbundnum leiðum og gildum samfélagsins, með aukinni hættu á að enda á einvers konar glapstigum? Fangar eru til að mynda þjóðfélagshópur sem hefur almennt fengið litla menntun. Margir þeirra hafa hætt í skóla á unglingsárum og hafa þess vegna ekki náð grunnliggjandi færni og þekkingu á mikilvægum sviðum hins daglega lífs. Alþjóðlegar rannsóknir sýna þannig að um 60-70% fanga glíma við mikla lestrarerfiðleika. Það er að segja, fangar eru margir illa læsir, eiga erfitt með að skrifa og eru margir þeirra skrifblindir. Meira en helmingur fanga glímir enn frekar við athyglisbrest og ofvirkni (ADHD).
Hegðun fólks á sér jafnan víðtækar rætur. Það kann að vera að hluti þess vanda íslenskra pilta sem hér er lýst kunni að eiga sér rætur í því að íslenskir piltar ná ekki tökum á lestri og finna sig ekki í skólakerfinu. Í þessum skilningi má halda því fram að lestur sé grunnlykillinn (e. master key) að öllum öðrum dyrum hvað varðar menntun og starfsframa ungs fólks. Lestur er talinn einn af þeim undirstöðuþáttum að ungt fólk komist áfram í framhaldsskóla og háskóla og öðlist þannig frekari menntun og víðsýni með öllum þeim tækifærum sem því fylgir. Slök lestrarfærni gæti þannig verið steinn í götu íslenskra pilta þegar þeir vaxa úr grasi og haft víðtækari og varanlegri áhrif fyrir einstaklinga og samfélag en virðist í fyrstu.
Það er eitt að bregðast við vandamálunum eftir að þau koma upp. Til að mynda getur reynst mikilvægt að veita þeim ráðgjöf og aðstoð sem standa höllum fæti og glíma við einhvers konar erfiðleika. Neyðarlínur fyrir þá sem eru í sjálfsvígshugleiðingum eru til að mynda mjög mikilvægar. Einnig er til dæmis mikilvægt að veita föngum kost á kennslu í lestri, skapandi skrifum og félagsfærni með það að markmiði að efla málþroska, félagsfærni og sjálfsmynd þeirra. En hvað sem öllum slíkum aðgerðum líður þá er enn mikilvægara að fyrirbyggja vandamálin áður en þau verða til. Með því að komast að rótum vandans má koma í veg fyrir margvísleg alvarleg félagsleg vandamál ungra íslenskra karlmanna, sem er mun árangursríkara þegar til lengri tíma er litið heldur en að reyna að setja plástra á sár sem eru jafnvel orðin það djúp að þau munu aldrei gróa að fullu – ef þau ná þá að gróa yfirhöfuð.
Það er ýmislegt sem bendir til þess að vandi íslenskra pilta eigi sér félags- og menningarlegar orsakir. Íslenskt samfélag þarf því að bregðast strax við þeim vanda. Við þurfum að byrja á að kortleggja vanda ungra karlmanna með markvissum og heildstæðum hætti. Við þurfum þverfaglegar rannsóknir sem skoða félagsheim íslenskra pilta sérstaklega. Við þurfum að prófa ýmsar tilgátur sem snúa að undirliggjandi orsökum vanda íslenskra pilta, gagnvirkni ólíkra þátta í lífi þeirra sem og tengslum ýmissa mögulegra áhrifabreyta. Stóra verkefnið er að skilja hvar upptök vandans liggja og finna leiðir og aðferðir til að fyrirbyggja vandann. Lestrarhæfni íslenskra pilta gæti verið eitt púslið í heildarmyndinni, skólakerfið gæti verið stórt púsl, sem og fjölskylduaðstæður og fyrirmyndir, svo eitthvað sé nefnt. Þetta þarf allt saman að skoða og greina.
Lausnin á vanda íslenskra pilta er ekki endilega einföld, en hún er til.
Það er okkar að finna hana.
Og það sem fyrst.
Hermundur Sigmundsson er prófessor við Háskólann í Reykjavík og Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og Viðar Halldórsson er prófessor við Háskóla Íslands.