Samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum tekur gildi í dag en Ísland er eitt þeirra ríkja sem hefur ekki fullgilt samninginn. Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins, segir að hættan af völdum kjarnorkuvopna hafi sjaldan eða aldrei verið jafn mikil og nú, ekki síst vegna tölvuþrjóta.
Samningurinn var samþykktur á allsherjarþingi SÞ árið 2017 af 122 ríkjum. Í dag hafa 86 ríki undirritað samninginn og rúmlega 50 ríki hafa fullgilt hann. Kveðið er á um að samningurinn taki gildi þegar 50 ríki hafa afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild og í dag eru þrír mánuðir síðan 50 ríki fullgiltu hann. Ekkert ríki sem á aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) hefur skrifað undir samninginn. Atli bendir á að það séu engar engar lagalegar hindranir sem standa í vegi fyrir því að Ísland sem aðili að NATO undirriti samninginn.
Afstaða íslenskra stjórnvalda er sú að samningurinn samræmist ekki áherslum NATO og þjóðaröryggisstefnu Íslands sem var samþykkt árið 2016 segir Atli. Rauði krosinn hefur svarað þeirri afstöðu og bent á að Ísland hafi þegar undirritað aðra samninga um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna og utanríkisstefna Íslands miðist öll í átt að afvopnun og því að hætta notkun kjarnorkuvopna, segir Atli.
„Aðild að þessum samningi myndi ekki fela í sér verulega breytingu á afstöðu Íslands til notkunar á kjarnorkuvopnum. Hún myndi hins vegar brúa mikilvægt bil á milli núverandi samninga sem Ísland er þegar aðili að og stefnu almennt því samningurinn er mjög afdráttarlaus, skýr og marghliða. Hann leggur almennt bann við hvers kyns notkun kjarnorkuvopna. Ísland ætti sem ábyrgt ríki í alþjóðasamfélaginu að sýna gott fordæmi og vera leiðandi í átt að kjarnorkuvopnalausum heimi með því að fullgilda samning sem leggur afdráttarlaus laust bann við notkun kjarnorkuvopna,“ segir Atli.
Yfirgnæfandi stuðningur er meðal Íslendinga um að skrifað verði undir samninginn eða 86% samkvæmt könnun sem gerð var meðal sex NATO-ríkja í Evrópu; Belgíu, Danmörku, Hollandi, Ítalíu og Spáni auk Íslands. Í öllum þessum löndum var niðurstaðan afgerandi – mikill meirihluti þátttakenda taldi að undirrita ætti samning Sameinuðu þjóðanna en niðurstaðan var kynnt seint í gærkvöldi.
Samningurinn festir í sessi afdráttarlaust bann við notkun kjarnorkuvopna á grundvelli alþjóðlegra mannúðarlaga sem tryggja skal eyðingu og afnám slíkra vopna, sem og bann við framleiðslu, flutningi, þróun, prófun, geymslu eða hótunum um notkun þeirra og gengur að því leytinu til lengra en fyrri samningar.
„Samningurinn undirstrikar þá alvarlegu hættu sem stafar af áframhaldandi tilvist kjarnorkuvopna og þeim óafturkræfu og gereyðandi afleiðingum sem slík vopn valda. Samningurinn skuldbindur ríki einnig til að koma þolendum kjarnorkunotkunar og kjarnorkutilrauna til aðstoðar ásamt því að koma á endurbótum vegna mengaðs umhverfis af völdum þeirra,“ segir í umsögn Rauða krossins á Íslandi um samninginn.
Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar um undirritun og fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum sem fjórir þingmenn VG hafa lagt fram. Þetta er í fimmta skiptið sem þingsályktunin er lögð fram.
Fjölmörg íslensk félög hafa skrifað undir áskorun um að íslensk stjórnvöld fullgildi einnig þennan samning. Atli segir að kjarnorkuvopn séu versta tegund gereyðingarvopna sem hafa gríðarlegar óafturkræfar afleiðingar. Ekki bara fyrir þá sem verða fyrir sprengingunni heldur langtímaafleiðingar á mannkynið sem og jörðina og dýraríkið.
Rauði krossinn var stofnaður fyrir rúmum 150 árum og helming þess tíma, eða allt frá því Rauði krossinn varð vitni að kjarnorkuárásunum á Hírósíma og Nagasaki árið 1945, hefur hreyfingin barist fyrir því að kjarnorkuvopn verði bönnuð. „Þessi samningur er sigur fyrir mannkynið,“ segir Atli.
Hann segir að það sé aðeins tímaspursmál hvenær önnur ríki gerast aðilar að samningum og hvort það þurfi raunverulega kjarnorkuslys til þess að ríki átti sig á mikilvægi þess að banna alfarið slík vopn enda er tilvist vopnanna ógn við allt líf á jörðinni.
„Um 14 þúsund kjarnorkuvopn eru til og þúsundir eru tilbúin til að vera hleypt af stað. Það er óhuggulegt að vita til þess að mannkynið hefur oft staðið frammi fyrir því að kjarnorkuvopnum hafi verið beitt fyrir misskilning eða vegna óhapps með óafturkræfum afleiðingum.
Með aukinni tölvuvæðingu er sú hætta einnig til staðar að tölvuþrjótar geti komist inn í tölvukerfi, annað hvort gefið villandi upplýsingar um að árás sé í aðsigi sem gæti kallað á þau viðbrögð af hálfu einhverra sem hafa kjarnorkuvopn undir höndum eða það sem verra er að tölvuþrjótar gætu komist í þær aðstæður að geta komið kjarnorkuvopnum af stað,“ segir Atli.
„Það er ógnvænlegt að hugsa til þess hvað lítið þurfi til,“ segir Atli. En Rauði krossinn hefur einnig bent á að það þurfi ekki nema einn leiðtoga sem er óábyrgur við meðferð slíkra vopna til að hrinda af stað skelfilegri atburðarás. Slík vopn geta gjöreytt allri jörðinni en bara ein slík sprenging í fjölmennri stórborg getur haft í för með sér svo hræðilegar afleiðingar að ég held að fólk geri sér hreinlega ekki grein fyrir því bætir Atli Viðar við í samtali við mbl.is.
Í sameiginlegri áskorun til íslenskra stjórnvalda kemur fram að skoðanakönnunin sýni að 75% aðspurðra eru hlynnt því að Ísland verði fyrst NATO-ríkja til að skrifa undir og fullgilda samninginn. Sambærilegar kannanir voru gerðar í Belgíu, Danmörku, Hollandi, Ítalíu og á Spáni og leiddu í ljós að nálægt eða yfir 80% eru fylgjandi samningnum og endurspegla þannig yfirgnæfandi stuðning almennings í þessum ríkjum gagnvart samningnum og gildistöku hans.
„Kjarnorkuvopn hafa í för með sér óafturkræfan eyðileggingarmátt. Engin læknis- eða mannúðaraðstoð er möguleg strax í kjölfar kjarnorkuárásar. Til frambúðar hefur slík árás skelfilegar afleiðingar fyrir mannfólk, dýraríki, umhverfi og loftslag, svo ekki sé minnst á neikvæð áhrif á landbúnaðarframleiðslu, ásamt skyndilegri hitalækkun og minnkun úrkomu á heimsvísu vegna reyks og rykmyndunar.
Bann við kjarnorkuvopnum er því eina tryggingin gegn notkun slíkra vopna og þeim afleiðingum sem notkun þeirra hefur í för með sér. Við undirrituð hvetjum íslensk stjórnvöld til þess að veita vilja almennings vægi og taka skref í átt að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Aðild Íslands að samningnum er nauðsynleg til að stuðla að vernd almennra borgara, lífríkis og náttúru til framtíðar og styrkja enn fremur stöðu þeirra alþjóðlegu samninga um kjarnorkuvopn sem Ísland á nú þegar aðild að. Með undirritun og fullgildingu samningsins er fyllt upp í mikilvægar eyður sem fyrri samningar hafa ekki kveðið á um.“