Bóluefni AstraZeneca veitir 80% vörn fyrir kórónuveirusmitum meðal eldra fólks og eykur ekki á líkur á blóðtöppum, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu í kjölfar niðurstaðna úr fasa 3 í klínískum rannsóknum á bóluefninu í Bandaríkjunum.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar veitir bóluefnið 79% vörn þegar horft er til allra og 100% vörn þegar kemur að alvarlegum veikindum og innlögnum á sjúkrahús.
Nokkur lönd hafa ekki bólusett eldra fólk með bóluefni AstraZeneca vegna þess að upplýsingar skorti varðandi áhrif þess að þann hóp við tilraunir með lyfið. Jafnframt hafa möguleg tengsl milli bóluefnisins og blóðtappa verið rannsökuð.
Alls tóku 32.449 þátt í klínískum rannsóknum í fasa 3 í Bandaríkjunum. Af þeim fengu tveir af hverjum þremur bóluefnið. Um 20% þeirra eru 65 ára og eldri og 60% þeirra voru með undirliggjandi sjúkdóma eða annað sem eykur hættu á verri Covid-veikindum. Svo sem með sykursýki, alvarlega offitu eða hjartasjúkdóma.
Niðurstaða rannsóknarinnar er einnig sú að ef meira en fjórar vikur líða á milli bólusetninga eykur það á virkni bóluefnisins en fyrri rannsóknir bentu til þess að betra væri að láta líða 12 vikur á milli bólusetninga.