Vísbendingar eru um að eldgosið í Fagradalsfjalli sé dyngjugos, tegund gosa sem varla hefur sést frá því við lok ísaldar. Gosefnamælingar benda til þess að kvika streymi upp af um 17-20 kílómetra dýpi og sé mun frumstæðari en sést hefur.
Rennsli í dyngjugosum er jafnan hægt en þau geta varað í langan tíma, jafnvel fleiri ár og ekki hægt að útiloka að það verði raunin í Geldingadal við Fagradalsfjall að sögn Magnúsar Á. Sigurgeirssonar jarðfræðings. Rennsli kvikunnar er talið vera 5-10 rúmmetrar á sekúndu.
Meðal þekktra dyngja á Reykjanesskaga eru Þráinsskjöldur, sem myndaðist fyrir um 14.100 árum. Af öðrum dyngjum má nefna fjallið Skjaldbreið norðaustur af Þingvöllum, sem varð til fyrir um níu þúsund árum.
Fjallað var um möguleikann á dyngjugosi á mbl.is á fimmtudag, degi áður en gosið braust út.
Sem fyrr segir er efnasamsetningin talin frumstæð. Með því er átt við að kvikan sé líkari því efni sem möttullinn gefur frá sér en gengur og gerist, útskýrir Sæmundur Ari Halldórsson, sérfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans. Hann segir það nokkur tíðindi ef um dyngjugos er að ræða.
„Við höfum oft verið að draga upp einfalda mynd: Þegar jökla leysti byrjuðu allra frumstæðustu bráðirnar að koma fram. Svo komu þessar risastóru dyngjur, Skjaldbreið og dyngjurnar á Reykjanesi. En síðan hafi engar dyngjur sem heitið geti gosið,“ segir hann.
Kvikan úr Fagradalsfjalli kemur beint úr möttli jarðar og stoppar ekki í skorpunni, segir Magnús, og samsetning hennar er því önnur en í venjulegum sprungugosum á Reykjanesskaga. Þannig er kvikan bæði þynnri og koltvísýringsríkari.
Ekki er þó hægt að slá því föstu að svo stöddu að gosið sé dyngjugos. Til þess þarf að vakta gosið betur og fylgjast með breytingum á kvikunni í nokkurn tíma. Bendir Sæmundur á að þótt líkindi séu með stórum dyngjum á svæðinu þá séu einnig smærri hraun jafnfrumstæð þessu og áþekk að efnasamsetningu.