Janssen hefur gert hlé á sendingum á bóluefni til þeirra ríkja sem eiga aðild að bóluefnasamstarfi Evrópusambandsins. Fyrsti skammturinn kom hingað til lands í morgun en hann bíður á meðan rannsakað er hvort bóluefnið tengist sjaldgæfri tegund blóðtappa.
Bandaríkin, Suður-Afríka og ríki Evrópusambandsins auk Íslands og Noregs hafa frestað notkun á bóluefni Johnson & Johnson (J&J) og dótturfélags þess, Janssen, eftir að tilkynnt var um möguleg tengsl þess við afar sjaldgæfa tegund blóðtappa. Fyrstu einstaklingarnir í ríkjum ESB voru bólusettir með bóluefninu í gær en notkun þess var hætt fljótlega þann sama dag.
Johnson & Johnson er bandarískt fyrirtæki á heilbrigðissviði. Bóluefnið er aftur á móti þróað og framleitt af lyfjafyrirtæki í þess eigu, Janssen, sem er með höfuðstöðvar í Belgíu.
Fyrirtækið hefur ákveðið samhliða þessu að gera hlé á sendingum á bóluefninu til ríkja sem eiga aðild að bóluefnasamstarfi ESB á meðan rannsókn stendur yfir. Um er að ræða svipuð mál og þau sem áður höfðu komið upp varðandi AztraZeneca enda bóluefnin af sambærilegri gerð.
Matthew Snape, prófessor í barnalækningum og ónæmisfræði við Oxford-háskóla, segir að ýmsar aukaverkanir geti komið upp þegar bólusett er og það hafi verið vitað fyrir fram. Hann stýrir rannsókn á því hvort öruggt sé að blanda saman bóluefnum, það er að gefa eitt bóluefni við fyrri bólusetningu en annað í þeirri síðari.
Fram hefur komið að rannsóknir á dýrum bendi til þess að sé það gert séu auknar líkur á meira ónæmi en annars væri en að sögn Snape er ekki hægt að fullyrða neitt um áhrifin á fólk fyrr en niðurstöður rannsókna liggi fyrir.
Þróun þessara bóluefna er komin mislangt á veg. Sum þessara bóluefna eru af nýrri gerð sem byggir á því að bóluefnið inniheldur hluta af erfðaefni veirunnar (mRNA) sem veldur því að frumur líkamans fara að framleiða gaddaprótín (e. spike proteins) veirunnar en ónæmiskerfið ræðst að þessum framandi prótínum og eyðir þeim.
Ef bólusetningin tekst gerist það sama ef veirurnar komast inn í líkamann, ónæmiskerfið (bæði mótefni í blóði og svokallaðar T-frumur) ræðst gegn þeim og gerir þær óvirkar. Þessi aðferð hefur ekki verið notuð áður til að framleiða bóluefni við sýkingum en miklar vonir eru bundnar við aðferðina. Bóluefni Ffizer-BioNTech eru svokölluð mRNA-bóluefni en AstraZeneca og Janssen virka með því að undirbúa líkamann til að verjast sýkingu af völdum kórónuveirunnar SARS-CoV-2. Veiran notfærir sér „gaddaprótein“ á yfirborði sínu til að komast inn í frumur líkamans og valda sjúkdómi.
Slík bóluefni innihalda adenóveiru sem breytt hefur verið á þann veg að hún inniheldur genaupplýsingar til að framleiða umrædd gaddaprótein. Sú veira getur hins vegar hvorki fjölgað sér né valdið sjúkdómi. Þegar bóluefnið hefur verið gefið fara genaupplýsingarnar úr adenóveirunni inn í frumur líkamans sem hefja framleiðslu á gaddapróteinum.
Ónæmiskerfið lítur á þau sem framandi fyrirbæri og hefur varnir með því að framleiða mótefni og T-frumur gegn veirunni. Sú vörn mun síðar koma að gagni til að verja viðkomandi einstakling gegn sýkingu af völdum SARS-CoV-2-kórónuveirunnar, þar sem ónæmiskerfið kemur til með að þekkja veiruna og ráðast gegn henni; mótefni og T-frumur vinna saman að því að drepa veiruna, meina henni aðgang í frumur og drepa sýktar frumur, og þar með verja einstaklinginn gegn Covid-19 að því er segir á vef Lyfjastofnunar.
Öll sex tilvikin sem eru til rannsóknar í Bandaríkjunum eru meðal kvenna á aldrinum 18 til 48 ára. Þær veiktust 6-13 dögum eftir að hafa verið bólusettar með bóluefni Janssens.
Að ráðleggingum Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) hefur bólusetningum með bóluefninu verið hætt alls staðar á vegum alríkisstjórnarinnar í Bandaríkjunum. Fastlega er gert ráð fyrir að aðrir þeir sem koma að bólusetningum, það er einstök ríki og einkaaðilar, fylgi í kjölfarið.
Ólíkt öðrum bóluefnum þarf aðeins einn skammt af bóluefninu frá Janssen og það er hægt að geyma í kæliskáp sem gerir það umtalsvert þægilegra í notkun, ekki síst á fjarlægum stöðum og slóðum þar sem loftslagið er hlýrra en í Evrópu og Norður-Ameríku.
Á sama tíma og mörg ríki hafi pantað milljónir skammta hefur það aðeins hlotið samþykki í fáum. Í Bandaríkjunum hlaut það markaðsleyfi 27. febrúar en þar í landi hafa bóluefni Pfizer-BioNTech og Moderna verið notuð mun meira. Janssen-bóluefnið hefur þegar verið notað við bólusetningar á um 7 milljónum í Bandaríkjunum eða um 3% af þeim sem þegar hafa verið bólusettir við Covid-19 þar í landi.
Anthony Fauci, einn helsti sérfræðingur Bandaríkjanna á svið farsóttarinnar, segir að of snemmt sé að fullyrða hvort eigi að afturkalla markaðsleyfi bóluefnisins.
Suður-Afríka hefur ákveðið að hætta að nota bóluefnið frá Janssen þrátt fyrir að ekki hafi komið upp nein blóðtappatilvik tengd bólusetningu þar. Janssen-bóluefnið er talið virka betur á það stökkbreytta afbrigði veirunnar sem fyrst greindist í Suður-Afríku og er búið að bólusetja 300 þúsund heilbrigðisstarfsmenn með því þar í landi.
Samningur Íslands við Janssen var undirritaður 22. desember 2020. Evrópska lyfjastofnunin (EMA) hélt matsfund vegna Janssen 11. mars 2021, framkvæmdastjórn ESB veitti bóluefninu skilyrt markaðsleyfi í kjölfarið auk þess sem Lyfjastofnun hefur veitt bóluefninu skilyrt markaðsleyfi á Íslandi. Ísland fær bóluefni fyrir 235.000 einstaklinga. Áætlað er að byrja afhendingu á öðrum ársfjórðungi, í seinni hluta aprílmánaðar, að því er segir á covid.is.
Fjöldi Evrópusambandsríkja er farinn að huga að því að semja um bóluefni gegn Covid-19 utan bóluefnasamstarfs Evrópusambandsins og eru nokkur þeirra nú þegar farin að semja utan þess að því er fram kemur í frétt Morgunblaðsins 3. mars. Þar segir að yfirvöld í Póllandi, Slóvakíu, Ungverjalandi og Tékklandi hafi öll gert ráðstafanir til að tryggja sér bóluefni utan Evrópusambandsins.
Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, segir að í morgun hafi komið til landsins 2.400 skammtar af bóluefninu frá Janssen og eru þeir í geymslu þangað til annað verður ákveðið. Júlía Rós sagði í morgunþætti Rásar 1 í morgun að hún telji að við værum í verri stöðu varðandi bóluefni ef við hefðum ekki farið í samstarf við Evrópusambandið. Hún tekur þar undir það sem Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði, sagði í Fréttablaðinu í gær.
„Við sem lítil þjóð hefðum aldrei getað samið við öll þessi fyrirtæki upp á eigin spýtur, vitandi ekkert um hvað yrði viðurkennt, hraða og framleiðslugetu þegar samningar hófust,“ segir Ingileif.
Stjórnvöld hafa rætt við fyrirtækin fyrir utan samstarfið en Ingileif efast um að árangurinn væri jafn mikill utan Evrópusamstarfsins.
Júlía segir að hún hafi verið spurð hvort þau hefðu einhver sambönd en svo sé ekki.