Ingenuity, smáþyrla bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA, mun mögulega fljúga yfirlitsflug yfir Mars á mánudag, eftir vikutöf vegna tæknilegra örðugleika. Fari svo verður um að ræða fyrsta vélknúna flugið á annarri plánetu, en þyrlan er knúin rafmagni.
Ingenuity átti upphaflega að fljúga um á Mars síðasta sunnudag en vegna óstaðfestrar bilunar sem kom upp við háhraðaprófanir á þyrluspöðum hennar varð að fresta fluginu.
Þyrlan er litlu stærri en hefðbundinn dróni, sem notaðir eru til myndatöku hér á jörðinni, og vegur aðeins um 1,8kg. Hún er hins vegar töluvert öflugri en hefðbundinn dróni, vegna þess hve miklu þynnra andrúmsloftið er á Mars. Þykkt andrúmsloftsins á Mars er ekki nema um 1% af því sem þekkist við sjávarmál hér á jörðinni.
Þyrlan var um borð í könnunarfari NASA, Perseverance, sem lenti á rauðu plánetunni 18. febrúar síðastliðinn. Hún mun, gangi allt að óskum, hefja sig á loft á mánudag og senda gögn um yfirborð Mars til Perseverance á yfirborði plánetunnar, sem síðan sendir gögnin til jarðar.
Svo erfitt er að fljúga vélknúinni þyrlu á Mars að því hefur verið líkt við flug Wright-bræðra árið 1903, fyrsta flug mannkynssögunnar. Því til heiðurs hefur efnisbútur úr vél þeirra bræðra verið festur á smáþyrluna.