Umtalsverður ávinningur af bólusetningu

AFP

Líkurnar á að smitast af Covid-19 minnka verulega eftir fyrri bólusetningu með bóluefnum AstraZeneca og Pfizer að því er fram kemur í niðurstöðum nýrrar breskrar rannsóknar. Bóluefnin virka vel á alla hópa, það er þá sem eru 75 ára og eldri, fólk með undirliggjandi sjúkdóma og aðra.

Tekið er fram í frétt BBC að niðurstöðurnar hafi ekki verið birtar í ritrýndum tímaritum en þetta byggir á veirurannsóknum á 370 þúsund einstaklingum í Bretlandi. 

Um tvær rannsóknir er að ræða. Í þeirri fyrri kemur fram að fólk sem hefur fengið fyrri skammtinn af bóluefni Pfizer eða AstraZeneca er mun ólíklegra, eða 65% ólíklegra, til þess að smitast af Covid-19 eftir að hafa fengið bólusetningu. 

Þegar fólk var búið að fá báða skammtana voru 90% minni líkur á að fólk smitaðist af Covid-19 en þeir sem voru óbólusettir. Þetta á aðeins við um þá sem hafa fengið Pfizer-BioNTech þar sem afar fáir hafa fengið tvo skammta af AstraZeneca-bóluefninu þar sem þrír mánuðir líða á milli bólusetninga.

Í frétt BBC kemur fram að bóluefnin hafi bæði virkað vel gegn b.1.1.7-afbrigði veirunnar en það afbrigði greindist fyrst í Kent og er það afbrigði sem er ríkjandi á Íslandi í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert