Stofnandi rafmyntar milljarðamæringur

Fjárfestar sækjast eftir því í auknum mæli að fjárfesta í …
Fjárfestar sækjast eftir því í auknum mæli að fjárfesta í rafmyntum. AFP

Stofnandi rafmyntarinnar ethereum er orðinn milljarðamæringur vegna rafmyntar sinnar. CNN greinir frá þessu.

Vitalik Buterin, kanadískur forritari af rússneskum ættum, bjó til rafmyntina ethereum árið 2013, þá einungis 19 ára. Í dag, átta árum seinna, er hver slegin mynt af þessum gjaldmiðli  virði tæplega 3,400 bandaríkjadali eða rúmlega 421 þúsund íslenskra króna. Buterin á sjálfur meira en 330 þúsund ether-myntir af rafmyntinni og er markaðsvirði þeirra meira en 1,2 milljarða bandaríkjadala.

Virði ethereum rafmyntarinnar hefur meira en fjórfaldast síðan um áramótin og er nú næststærsta rafmyntin á markaðnum á eftir bitcoin.  Áhugi fjárfesta á rafmyntum hefur aukist á milli áranna og er ethereum ekki eina rafmyntin sem óx í virði síðan um áramótin. Virði bitcoin hefur næstum því tvöfaldast á sama tímabili og er hver mynt af þeim gjaldmiðli virði um 55 þúsund bandaríkjadala.

Vinsældir rafmyntarinnar ethereum má meðal annars rekja til mikla notkun hennar við kaup og sölu á NFT-skírteinum. Slík skírteini gera einstaklingum kleift að kaupa og selja á milli sín eignaréttinn á stafrænu efni eins og t.d. myndum og myndböndum. Sem dæmi um slík viðskipti seldi Jack Dorsey NFT-skírteini af fyrsta tístinu sem birt var á Twitter fyrir rúmlega 2,9 miljónir bandaríkjadala.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert