Evrópusambandið þrýstir mjög á tæknirisana, svo sem Facebook, YouTube og TikTok, að gera meira í baráttunni við upplýsingaóreiðu, veita betri aðgang að algoritmum sínum og setja aukinn kraft í staðreyndavöktun.
Þetta er liður í viðleitni ESB að styrkja núgildandi siðareglur hvað varðar upplýsingaóreiðu sem voru settar á laggirnar árið 2018 eftir að upplýst var um þá upplýsingaóreiðu sem átti sér stað á samfélagsmiðlunum í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna um útgöngu Breta úr ESB (Brexit) og forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016.
Tæknifyrirtækin Google, Facebook, Twitter og Microsoft rituðu undir samkomulagið það ár og í júní í fyrra bættist TikTok við ásamt öllum stóru auglýsingastofnunum.
Í kjölfar kórónuveirufaraldursins hefur framkvæmdastjórn ESB beint því til þeirra fyrirtækja sem skrifuðu undir samkomulagið um að ganga enn lengra hvað varðar skuldbindingar sínar á þessu sviði.
Varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, Vera Jourova, segir að harðari og nákvæmari siðareglur séu nauðsynlegar til að ráðast gegn skipulagðri áhættu á vefjunum.