Biden krefst rannsóknar á uppruna Covid-19

Sýnataka vegna Covid-19 í kínversku borginni Wuhan.
Sýnataka vegna Covid-19 í kínversku borginni Wuhan. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur farið fram á það við leyniþjónustuskrifstofur Bandaríkjanna að þær rannsaki uppgang Covid-19 á sama tíma og vaxandi ágreiningur er um uppruna veirunnar. 

Frétt New York Times

Í yfirlýsingu sem Biden sendi frá sér í gær kemur fram að hann hafi óskað eftir því við leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna að setja aukinn kraft í rannsóknir sínar og gefa honum skýrslu um niðurstöður þeirra innan 90 daga. Þar tekur hann fram að ekki liggi nein niðurstaða fyrir, hvorki hjá CIA né öðrum leyniþjónustustofnunum. Aftur á móti að hann vilji að málið verði rannsakað í þaula.

BBC greinir frá þessu en Covid-19 varð fyrst vart í kínversku borginni Wuhan undir lok árs 2019. Síðan þá hafa yfir 168 milljónir jarðarbúa sýkst og að minnsta kosti 3,5 milljónir þeirra látist. 

Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur óskað eftir því að fá …
Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur óskað eftir því að fá skýrslu um rannsóknina innan 90 daga. AFP

Yfirvöld í Kína tengdu fyrstu Covid-smitin við markað með sjávarfang í Wuhan og vísindamenn telja að veiran hafi borist í menn frá dýrum.

Fyrr í vikunni fjölluðu bandarískir fjölmiðlar um möguleikann á því að veiran hafi mögulega orðið til í rannsóknarstofum í Kína líkt og fjallað var um í grein Andrésar Magnússonar í Morgunblaðinu í gær.

Stjórnvöld í Peking hafa fordæmt þessar fréttir og segja að veiran hafi alveg eins getað orðið til í bandarískum rannsóknarstofum.

Fyrstu tilvik veirunnar voru staðfest í Wuhan undir lok árs …
Fyrstu tilvik veirunnar voru staðfest í Wuhan undir lok árs 2020. AFP

Greinin sem birtist í Morgunblaðinu í gær: 

Upp á síðkastið hefur tilgátan um að kórónuveiran hafi orðið til á veirurannsóknarstofu kínverskra stjórnvalda í Wuhan gengið í endurnýjun lífdaga og af auknum krafti. Fyrst þegar hún var sett fram, snemma í heimsfaraldrinum, var henni nær afdráttarlaust vísað á bug sem fráleitri samsæriskenningu og þeim, sem á henni impruðu, bornar annarlegar hvatir á brýn.

Þar kunna hagsmunir kínverskra stjórnvalda að hafa skipt nokkru, en eins var þeirri tilgátu oft blandað saman við aðra, um að veiran hefði verið búin til sem lífefnavopn. Fyrir því eru nær engin líkindi og alls engar vísbendingar. En fyrir vikið voru mun færri til í að leiða hugann að því að veiran hefði nú samt verið búin til og hún hefði sloppið út fyrir vangá eða slysni.

Fyrr en nú, þegar æ fleiri taka undir að þar sé a.m.k. möguleg skýring, enda sé ekki fram komin önnur sennilegri skýring á því hvernig þessi kórónuveira varð til, hvernig hún barst í menn og hversu bráðsmitandi hún reyndist vera.

Þar á meðal er dr. Anthony Fauci, einn virtasti vísindamaður Bandaríkjanna á þessu sviði, sem nú segir opinberlega að ekki sé hægt að útiloka það.

Óljós uppruni veirunnar

Uppruni kórónuveirunnar hefur þó alla tíð verið myrkrum sveipaður, þótt fáir sjúkdómar hafi verið rannsakaðir af meira kappi. Á því eina og hálfa ári, sem heimsfaraldurinn hefur geisað, hefur hann lagt rúmar þrjár milljónir manna í gröfina, gert hundruð milljóna fárveika og haft ómæld efnahagsáhrif um heim allan.

Upphaflega töldu margir að veiran hefði borist með einhverjum hætti frá leðurblökum um aðrar dýrategundir til manna, þótt ekki væri sú leið skýrð með viðhlítandi hætti. Helst var horft til opinna kjötmarkaða í Kína, þar sem hreinlæti og smitgát þykir fremur ábótavant. Sú leið var ekki óhugsandi, en fyrir henni hafa engar sannanir fundist þótt mikið hafi verið leitað.

Frá upphafi hafa þó margir bent á að það hafi verið ótrúleg tilviljun, að veiran hafi fyrst slegið sér niður örskammt frá Veirufræðirannsóknarstofnuninni í Wuhan, þar sem eiga sér einmitt stað bæði rannsóknir og tilraunir með veirur.

Þá hefur komið í ljós að þrír vísindamenn við Veirurannsóknarstofnunina í Wuhan urðu svo veikir í nóvember 2019, að leggja þurfti þá á sjúkrahús. Það þykir mörgum vera næg ástæða til þess að rannsaka frekar hvað hafi eiginlega átt sér stað þar í stofnuninni, en þrátt fyrir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hafi sent rannsóknarnefnd þangað í febrúar, voru kínversk stjórnvöld naum á aðgang hennar að gögnum og vísindamönnum.

Vísbendingar um veirutilraunir

„Mönnum virðist hafa snúist hugur,“ segir Nicholas Wade, fyrrum vísindablaðamaður New York Times , sem segir að miðað við fyrirliggjandi gögn sé líklegra að kórónuveiran hafi sloppið úr rannsóknarstofu en að hún hafi borist í menn með náttúrulegum hætti, þ.e.a.s. frá einni tegund til annarrar. Hann tekur fram að sú skýring hafi verið afar sennileg í upphafi, enda hafi tveir fyrri faraldrar brotist út með þeim hætti. Eftir því sem tíminn hafi liðið án þess að nokkur sönnunargögn þess hafi fundist hafi fyrri kenningin, um að veiran hafi orðið til í rannsóknarstofu og sloppið þaðan, orðið æ sennilegri.

„Það lítur út fyrir að þeir hafi átt við veirur, flutt prótein frá einni kórónuveiru til annarrar í von um að búa til smitgjarnari veiru.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka