Áhyggjur af virkni Janssen gegn Delta-afbrigðinu

Sumir faraldsfræðingar segja bóluefni Janssen ekki virka eins vel gegn …
Sumir faraldsfræðingar segja bóluefni Janssen ekki virka eins vel gegn Delta-afbrigðinu en önnur bóluefni. Ekkert bendir þó formlega til þess að svo sé. AFP

Faraldsfræðingar eru margir hverjir að velta fyrir sér þörf á því að bólusetja þá, sem fengið hafa bóluefni Janssen gegn kórónuveirunni, með bóluefni Pfizer eða Moderna til viðbótar, svo verja megi fólk gegn Delta-afbrigði veirunnar.

Í frétt Reuters-fréttaveitunnar segir að margir faraldsfræðingar hafi sjálfir brugðið á það ráð að láta bólusetja sig með þessum hætti í þeim tilgangi að öðlast frekari vörn, þrátt fyrir að engin haldbær gögn eða ritrýndar rannsóknir bendi til þess að slíkt sé öruggt eða nauðsynlegt.

Í Kanada og einhverjum Evrópulöndum er í boði að þiggja bóluefni frá fleirum en einum framleiðanda kjósi fólk svo.

Verja síður gegn svæsnum veikindum

Málið allt hverfist um áhyggjur sumra faraldsfræðinga af því hvort bóluefni Janssen veiti nægilega vörn gegn Delta-afbrigðinu, áður kallað indverska afbrigði veirunnar. Delta-afbrigðið hefur verið sagt sterkara að því leyti að fólk virðist fá svæsnari einkenni Covid-19 en af hefðbundnari afbrigðum veirunnar.

Andy Slavitt, fyrrverandi ráðgjafi Joes Bidens Bandaríkjaforseta um faraldsfræði, lýsti yfir áhyggjum sínum í eigin hlaðvarpsþætti í liðinni viku.

Þar að auki sagði Michael Lin, prófessor við Stanford-háskóla í Kaliforníu: „Það er enginn vafi á því að þeir sem bólusettir eru með bóluefni Janssen hafa minni varnir en þeir sem fá tvær sprautur af öðrum bóluefnum.“

Bóluefni Janssen er eina bóluefnið í notkun hér á landi sem aðeins er veitt með einni sprautu í stað tveggja.

CDC mælir ekki með aukasprautum

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) mælir þó gegn því að fólk sé bólusett til viðbótar við bóluefni Janssen með öðrum bóluefnum. Ráðgjafar stofnunarinnar sögðu á blaðamannafundi nýverið að ekkert benti enn til þess að virkni bóluefna gegn kórónuveirunni minnkaði með tíð og tíma.

Jason Gallagher, sérfræðingur í sóttvörnum við Temple-háskólann í lyfjafræðum, þáði nýverið eina sprautu af bóluefni Pfizer, til viðbótar við bóluefni Janssen, sem þátttakandi í prófunum framleiðandans í nóvember í fyrra. Hann segist áhyggjufullur vegna gagna frá Bretlandi sem hann segir sýna fram á minni virkni einnar sprautu bóluefna gegn Delta-afbrigðinu.

„Þótt staðan sé orðin mun betri hér í Bandaríkjunum þá er þetta Delta-afbrigði hérna að breiðast út … og það er að taka yfir ansi hratt sem veldur áhyggjum vegna þessara hópsmita meðal þeirra sem hafa fengið bara eina sprautu,“ sagði Gallagher við Reuters.

„Þannig að ég kýldi bara á það,“ bætti hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert