Jafnvel væg tilvik Covid-19 hjá ungu fólki leiða oft til langvarandi einkenna Covid-19 og heilsufarskvilla sem fylgja fólki gjarnan í sex mánuði eða lengur, samkvæmt lítilli norskri rannsókn sem birt var í síðustu viku í fagtímaritinu Nature Medicine.
Vísindamenn við Háskólann í Bergen fylgdust grannt með 312 manns sem höfðu smitast af Coivd-19 í að minnsta kosti sex mánuði. Af þeim höfðu 247 einungis fengið vægan til meðal alvarlegan sjúkdóm. Engan í hópnum þurfti að leggja inn á sjúkrahús. Sex mánuðum eftir að hafa greinst smituð fundu 136 (eða 55%) af fyrrnefndum 247 enn fyrir einkennum Covid-19.
Þeir einstaklingar voru sannarlega ekki allir í eldri kantinum. Þvert á móti fundu 50 til 60% þátttakenda í öllum aldurshópum á milli 16 ára og 60 ára fyrir langvarandi einkennum. Algengustu einkennin voru truflun á bragð- eða lyktarskyni, þreyta, öndunarerfiðleikar, einbeitingarörðugleikar og minnisvandamál.
Tekið skal fram að rannsóknin var fremur lítil í sniðum. Samt sem áður bætir hún við mikilvægri þekkingu um eftirköst Covid-19, þeirri þekkingu að fólk í öllum aldurshópum, jafnvel þótt það hafi ekki veikst alvarlega, finnur fyrir langvarandi einkennum sjúkdómsins.
Höfundar rannsóknarinnar lýstu yfir áhyggjum af því að jafnvel væg tilfelli Covid-19 hjá ungu fólki leiddu til langvarandi vandamál.
„Það er áhyggjuefni að ungt fólk sem hefur ekki þurft að fara á sjúkrahús þjáist af hugsanlega alvarlegum einkennum, svo sem einbeitingar- og minnisvandamálum, mæði og þreytu, hálfu ári eftir smit,“ skrifuðu höfundar sem telja að fjöldabólusetning og sóttvarnir séu nauðsynlegar til þess að koma bæði í veg fyrir Covid-19 og eftirköst sjúkdómsins.