Bandaríski lyfjarisinn Johnson & Johnson, framleiðandi bóluefnisins Janssen gegn Covid-19, hefur gefið út að örvunarskammtur veiti skjóta aukningu á mótefni.
Samkvæmt bráðabirgðagögnum úr rannsókn Johnson & Johnson leiddi annar skammtur af Janssen-bóluefninu til nífaldrar fjölgunar á mótefnum gegn Covid-19, samanborið við það mótefni sem þátttakendur rannsóknarinnar höfðu 28 dögum eftir að hafa hlotið fyrri skammt bóluefnisins.
Þátttakendur rannsóknarinnar voru um 2.000 talsins og fengu þeir örvunarskammtinn sex mánuðum eftir fyrsta skammtinn af bóluefninu. Veruleg aukning á mótefnasvörun sást hjá einstaklingum á aldrinum 18 til 55 ára og hjá þeim 65 ára eða eldri sem fengu vægari skammt af örvunarskammtinum.
Í frétt CNN kemur fram Johnson & Johnson eigi nú í viðræðum við bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið, evrópsku lyfjastofnunina, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og önnur heilbrigðisyfirvöld um nauðsyn þess að bjóða upp á örvunarskammt af Janssen-bóluefninu.