Meira heilsufarstjón eftir Covid en bólusetningar

Líkurnar á heilablóðfalli eru 12 sinnum minni hjá einstaklingi sem …
Líkurnar á heilablóðfalli eru 12 sinnum minni hjá einstaklingi sem hlotið hefur bólusetningu með bóluefni Pfizer, samanborði við einstakling sem smitast hefur af kórónuveirunni. AFP

Niðurstöður nýrrar rannsóknar gefa til kynna að líkur á heilsufarstjóni af völdum aukaverkana bólusetninga séu ekki miklar í samanburði við líkurnar á heilsufarstjóni vegna kórónuveirusmits.

BBC greinir frá þessu.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar, sem var á vegum Oxford-háskólans í Bretlandi, var meðal annars greint frá því að þó áhætta á heilablóðfalli, innvortisblæðingum og blóðtappa, myndi aukast í kjölfar bólusetningu, þá væri þessi áhætta hlutfallslega hærri eftir Covid-19 sýkingu.

Heldur rannsóknarteymið því fram að þrátt fyrir mögulegar aukaverkanir, sé ávinningur bólusetninga enn talsverður ef litið er til eftirkasta og fylgikvilla kórónuveirusmits.

Heilsufarstjónið meira eftir Covid-19 sýkingu en bólusetningu

Í rannsókninni var tekið mið af heilsufarsskrám frá rúmlega 29 milljónum einstaklinga og voru langflestir þeirra eldri en 40 ára. Leituðu rannsakendur að mögulegum aukaverkunum allt að 28 daga eftir að einstaklingarnir höfðu annað hvort hlotið bólusetningu eða smitast af veirunni.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur meðal annars fram að:

Fyrir hverja 10 milljón einstaklinga sem hafa verið bólusettir með bóluefni AstraZeneca hafa 107 verið lagðir á spítala eða dáið vegna thrombocytopenia, sem veldur m.a. innvortisblæðingum. Sú áhætta er þó níu sinnum meiri í kjölfar kórónuveirusýkingar. Þeir sem hafa smitast af veirunni eru jafnframt 200 sinnum líklegri að lenda inn á spítala eða  deyja vegna blóðtappa, í samanburði við einstaklinga sem höfðu einungis fengið bólusetningu AstraZeneca.

Fyrir hverja 10 milljónir einstaklinga sem voru bólusettir með bóluefni Pfizer fengu 143 heilablóðfall. Aftur á móti voru einstaklingar sem höfðu veikst af Covid-19 12 sinnum líklegri til að fá heilablóðfall.

Þurfum að skoða út frá stærra samhengi

Julia Hippisley-Cox, prófessor og aðalhöfundur rannsóknarinnar, segir mikilvægt að fólk sé upplýst um þær mögulegu aukaverkanir sem bólusetningarnar kunna að hafa í för með sér. Hins vegar sé þó einnig nauðsynlegt að taka mið af stærra samhengi og að kórónuveirusýking sé enn áhættusamari en bólusetningar.

Meðrannsakandi hennar, Aziz Sheikh, sagði niðurstöðurnar jafnframt undirstrika mikilvægi þess að láta bólusetja sig til að minnka líkur á blóðtöppum og blæðingum. Segir hann bólusetningarnar boða mikinn samfélagslegan ávinning.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert