Starfsfólk í höfuðstöðvum Nike í Oregon, Bandaríkjunum, fær vikufrí til að safna kröftum og styrkja andlega heilsu sína áður en það hefur aftur störf í september.
BBC greinir frá þessu.
„Takið tíma til að slaka á og verja tíma með ástvinum ykkar,“ sagði Matt Marrazzo, yfirmaður fyrirtækisins í skilaboðum til starfsmanna. Bætti hann einnig við að síðasta ár hafi verið erfitt og að heimsfaraldurinn væri átakanlegur atburður.
Með þessu athæfi fylgir Nike fordæmi annarra fyrirtækja, eins og stefnumótaforritsins Bumble og Linkedin, sem hafa einnig tekið upp á svipuðum aðgerðum.
Að sögn Marrazzo verður vikan ekki eingöngu frí heldur einnig viðurkenning á mikilvægi þess að sinna andlegri heilsu.
Sífellt fleiri starfsmenn hafa greint frá vanlíðan í starfi nú þegar heimsfaraldurinn hefur dregist á langinn og margir vinna enn að heiman, við misjafnar aðstæður. Hafa margir kvartað yfir því að brenna út í starfi. Fjöldi bandarískra stórfyrirtækja á borð við Apple og Uber hafa nú frestað endurkomu starfsfólks á vinnustöðvar í kjölfar þess að smit hafa nú breitt víða úr sér um Bandaríkin.