Kalla 1.000 Íslendinga inn í mígrenirannsókn

Talið er að um 50.000 Íslendingar þjáist af mígreni.
Talið er að um 50.000 Íslendingar þjáist af mígreni. Getty images

Talið er að um 50.000 Íslendingar þjáist af mígreni og er þúsund þeirra boðið að taka þátt í rannsókn á áhrifum líftæknilyfs á einkennin, að því er greint frá í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Meðal þess sem kannað verður í rannsókninni er sambandið milli svörunar við nýja mígrenilyfinu erunumbak (Aimovig) og erfðaþátta. Ólafur Árni Sveinsson taugalæknir stýrir rannsókninni sem er unnin í samstarfi við Amgen og Íslenska erfðagreiningu.

„Lyfið hemur virkni CGRP (calcitonin gene-related peptide) sem er eitt af lykilpróteinum í meingerð mígrenis,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Rannsóknin stendur yfir í sex mánuði

Það hafi fyrst komið á markað í Ameríku og Evrópu fyrir nokkrum árum og reynst mjög vel, meðal annars hér á landi, að sögn hans. Nú eigi svo að kanna áhrif þess á þá sem þjást af mígreni enn betur.

„Við erum komin með um það bil 500 þátttakendur núna og þurfum þá 500 í viðbót.“

Inntur eftir því segir hann þá sem hafa glímt við tiltölulega slæmt mígreni í minnst fjóra daga á mánuði koma til greina sem þátttakendur í rannsókninni. Framkvæmdin fari svo fram hjá Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna í Kópavogi. 

„Rannsóknin stendur yfir í sex mánuði og fá þátttakendur lyfjapenna sem þeir nota einu sinni í mánuði. Þá mun koma í ljós hversu vel þessi tiltekni hópur af fólki svarar lyfinu.“

Spurður segir hann aukaverkanir vissulega geta fylgt notkun lyfsins, líkt og notkun annarra lyfja. Þær séu þó bæði vægar og afar fátíðar.

„Það er helst hægðatregða sem hefur verið nefnd og svo roði á stungustað. Það eru einhver nokkur prósent sem finna fyrir því.“

Yfir hundrað undirliggjandi erfðabreytileikar

Mígreni er þekkt í ættum og er vitað af yfir hundrað undirliggjandi erfðabreytileikum mígrenis, að sögn Ólafs. Með ofangreindri rannsókn verði kannað hvort einhverjir erfðaþættir spái fyrir um hversu vel sjúklingurinn svarar lyfinu.

„Í framtíðinni verður vonandi hægt að skilgreina hverskonar mígreni einstaklingur er með og veita viðeigandi lyfjameðferð eftir því.“

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í rannsókninni geta skráð sig á: migreni.rannsokn.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka