Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þegar eiginleikar Ómíkron-afbrigðisins skýrast betur verði hægt að endurmeta núverandi sóttvarnaráðstafanir, einkum innanlands.
Þetta kemur fram í nýju minnisblaði Þórólfs sem hann sendi heilbrigðisráðherra er varðar sóttvarnaaðgerðir innanlands.
Þórólfur segir, að ef sýnt þyki að afbrigðið sé ekki að valda skæðum sjúkdómi og að bólusetning og fyrra smit af völdum Covid-19 verndi þá verði komnar faglegar forsendur til að skoða eftirfarandi:
Þórólfur tekur fram að mikill óvissutími sé núna bæði hvað varðar núverandi bylgju af völdum Delta-afbrigðis kórónuveirunnar og þá þróun sem kunni að verða á faraldrinum með tilkomu Ómíkron-afbrigðisins. Sú staða kunni að koma upp að Ómíkron-afbrigðið sé meira smitandi en fyrri afbrigði, valdi verri sjúkdómi og að bóluefni og fyrri sýking verndi ekki gegn smiti. Þessi óvissa gefi því tilefni til að fara varlega í tilslökunum innanlands og á landamærum á þessari stundu.
Fram kemur í minnisblaðinu, að núverandi bylgja, sem hófst seinni hluta júlímánaðar 2021 og sé enn í fullum gangi, sé sú stærsta síðan heimsfaraldur Covid-19 skall á. Rúmlega 11.000 manns hafa greinst í þessari bylgju. Í núverandi bylgju hafa 213 manns (2% allra sem greinast með Covid-19) þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna alvarlegra veikinda, flestir á Landspítalann en nokkrir á Sjúkrahúsið á Akureyri. Á gjörgæsludeild þurfti 41 að leggjast inn (0,4%), 24 þurftu á aðstoð öndunarvéla að halda (0,2%) og fimm hafa látist (0,04%).
Þá er fjallað um það að miklar vonir hafi verið bundnar í byrjun sumars við árangur bólusetninga gegn Covid. Það hafi hins vegar komið í ljós að full bólusetning með tveimur sprautum veiti einungis um 50% vörn gegn smiti af völdum Delta-afbrigðis kórónuveirunnar en um 90% vörn gegn alvarlegum veikindum.
„Nýlegar rannsóknir frá Svíþjóð sýna enn fremur, að vernd bóluefnanna minnkar með tímanum og sjö mánuðum eftir seinni skammt bólusetningar er verndin gegn smiti orðin óveruleg þótt hún sé til muna betri gegn alvarlegum veikindum. Þetta er í samræmi við þá reynslu sem fengist hefur hér á landi en rúmlega helmingur þeirra sem greinast smitaðir eru fullbólusettir og um 40-50% þeirra sem leggjast inn á sjúkrahús eru sömuleiðis fullbólusettir. Hins vegar er verndin af bólusetningunum ótvíræð þegar litið er til alls þess fjölda sem er fullbólusettur því líkur á smiti hjá óbólusettum eru um þrefalt hærri en hjá fullbólusettum og líkur á sjúkrahúsinnlögnum eru um 5-7 sinnum hærri. Veikindi óbólusettra sem þurfa á innlögn á sjúkrahús að halda eru að auki til muna meiri og langdregnari en þeirra sem eru fullbólusettir.“
Þá segir, að vegna ófullnægjandi árangurs af tveimur skömmtum af bóluefnum hafi veirð farin sú leið hér á landi að bjóða öllum 16 ára og eldri þriðja skammt bóluefnis, svokallaðan örvunarskammt, sem gefinn er a.m.k. 5-6 mánuðum eftir skammt tvö.
„Erlendar rannsóknir hafa sýnt að örvunarskammturinn bætir vernd gegn Delta-afbrigði veirunnar umtalsvert umfram hefbundna tveggja skammta bólusetningu og reynslan hér á landi bendir til hins sama. Í uppgjöri vísindamanna við HÍ (Thor Aspelund) kemur í ljós að vernd gegn smiti eftir örvunarskammtinn er 90% meiri en eftir skammt tvö þó ekki sé vitað á þessari stundu hversu lengi verndin varir. Áætlað er að búið verði að bólusetja flesta með örvunarskammti í febrúar/mars á næsta ári (2022). Sömuleiðis benda okkar gögn til að bólusetning barna 12-15 ára minnki verlega líkur á smiti hjá þessum aldurshópi en smit hjá börnum (einkum óbólusettum) er um 30% af öllum greindum smitum. Í undirbúningi er nú að hefja bólusetningu hjá börnum fimm til og með 11 ára og verður endanleg ákvörðun kynnt á næstunni.“