Lamaður maður nær að skrifa tíst með huganum

Lamaður maður skrifaði tíst á Twitter með hjálp örflögu sem …
Lamaður maður skrifaði tíst á Twitter með hjálp örflögu sem hann fékk grædda í sig. AFP

Lamaður maður varð fyrsta manneskjan til að tísta á samfélagsmiðlinum Twitter með hugaraflinu einu saman þann 26. desember, þökk sé örflögu sem grædd var í heila hans.

Hvorki þörf á lyklaborði né raddstýringartækni

Philip O-Keefe, 62 ára gamall Ástrali sem þjáist af hreyfitaugahrörnunarsjúkdómnum ALS (e. amyotrophic lateral sclerosis), samdi og birti tístið umrædda með hjálp heilatölvuviðmóts sem þróað var af taugatæknifyrirtækinu Synchron, að því er breski fréttamiðillinn Independent greinir frá.

„Engin þörf á lyklaborði eða raddstýringu. Ég skrifaði þetta tíst bara með því að hugsa um það,“ segir O-Keefe í tístinu sem birt var á Twitter-aðgangi Thomas Oxley, forstjóra Synchron.

Vonast til að ryðja brautina

O-Keefe birti svo sjö önnur tíst til viðbótar þar sem hann svaraði spurningum Twitter-notenda.

„Ég vona að ég sé að ryðja brautina fyrir fólk til að geta tíst með hugsunum sínum einum saman,“ sagði hann í svari sínu við seinustu spurningunni.

Örflagan, sem kallast Stentrode, var fyrst grædd í O-Keefe í apríl 2020 þegar sjúkdómurinn sem hann þjáist af var farinn að há honum bæði í starfi og daglegu lífi.

Til að forðast inngripsmikla heilaskurðaðgerð var ákveðið að þræða örflöguna í gegnum bláæð í hálsi O-Keefe í staðinn. Örflagan hefur gert honum kleift að tengjast ástvinum sínum og samstarfsfólki á ný í gegnum tölvupóstsamskipti. Þá getur hann einnig spilað einfalda tölvuleiki á borð við Solitaire eftir ígræðsluna.

„Þetta er svolítið eins og að læra að hjóla“

„Þegar ég heyrði fyrst af þessari tækni vissi ég hversu mikið sjálfstæði hún gæti fært mér aftur,“ sagði O-Keefe eftir að hafa birt fyrsta tístið sitt, samkvæmt tilkynningu frá Synchron.

„Þetta kerfi er alveg ótrúlegt. Þetta er svolítið eins og að læra að hjóla. Þetta krefst æfinga en um leið og þú nærð tökunum á þessu verður þetta mjög náttúrulegt. Nú hugsa ég bara á hvað ég vil smella á tölvunni og get þannig sent tölvupóst, notað heimabankann minn, verslað á netinu og sent heiminum skilaboð í gegnum Twitter.“

Aðeins fjórar klukkustundir liðu frá því að örflagan var grædd í O-Keefe þar til hann gat notað hana til að setja texta inn á tölvu en tístin hans voru notuð sem leið til að kynna heiminum tæknina.

„Þessi skemmtilegu tíst eru í raun mikilvæg stund fyrir framþróun þessarar tækni,“ sagði Thomas Oxley, forstjóri Synchron.

„Þau undirstrika tengslin, vonina og frelsið sem tæknin getur veitt fólki eins og O-Keefe sem hefur misst mikið af sjálfstæði sínu vegna sjúkdómsins sem hann þjáist af.“

Hefja klíníska rannsókn á notkun Stentrode í ár

Fyrsta klíníska rannsóknin á notkun tækni Synchron verður framkvæmd í Bandaríkjunum í ár.

Synchron er eitt þeirra nýsköpunarfyrirtækja sem hefur náð miklum framförum í taugatækni en milljarðamæringurinn og frumkvöðullinn Elon Musk hyggst einnig hefja tilraunir á svipaðri taugatækni, undir formerkjum Neuralink, á þessu ári.

Musk hefur áður haldið því fram að tækni Neuralink muni geta streymt tónlist beint til heilans og endurheimtt fulla líkamsvirkni þeirra sem þjást af skertri hreyfigetu.

Nú þegar hefur tæknin verið prófuð á svínum og öpum. Þá hefur tæknin gert apa, sem kallaður er Page, kleift að spila tölvuleik með huganum einum saman.

Musk segir endanlegt markmið Neuralink vera að losa mannfólkið undan samkeppninni við háþróaða gervigreind.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka