Carbfix semur við Eflu um förgunarstöð

Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix og Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri …
Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix og Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri Eflu. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirtækið Carbfix hefur samið við verkfræðiskrifstofuna Eflu um forhönnun á Coda Terminal, fyrirhugaðri móttöku- og förgunarstöð fyrir koldíoxíð í Straumsvík.

Fram kemur í tilkynningu að forhönnunin feli meðal annars í sér þarfagreiningu og frumhönnun á búnaði og byggingum, valkostagreiningar og mat á skipulagsmálum, kostnaði og tímaáætlunum.

Áætlað er að þessum þætti ljúki í sumar og þá taki við fullnaðarhönnun. Samhliða þessu hefst einnig vinna við umhverfismat verkefnisins. 

Hefjist í tilraunaskyni á næsta ári

Coda Terminal er ætlað að taka á móti 3 milljónum tonna af koldíoxíði á ári og farga því með Carbfix tækninni. Hún felst í að blanda það vatni og dæla því niður í basaltjarðlög, þar sem það umbreytist varanlega í stein með náttúrulegum ferlum.

Koldíoxíðið verður annars vegar fangað frá iðnaði í Norður-Evrópu og flutt hingað til lands með sérhönnuðum skipum, og hins vegar frá álveri Rio Tinto í Straumsvík.

Stefnt er að því að niðurdæling í tilraunaskyni hefjist 2023 og að stöðin nái fullum afköstum 2031, en þau samsvara meira en helmingi af árlegri heildarlosun Íslands á CO2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka