Ný rannsókn sem gæti breytt heimsmyndinni

Wilson Hall-byggingin á lóð Fermilab.
Wilson Hall-byggingin á lóð Fermilab. Ljósmynd/Fermilab/Ryan Postel

Vísindamenn við Fermilab Collider Detector (CDF) í Illinois í Bandaríkjunum, sem er skammt frá Chicago, hafa komist að því að massi öreinda sé ekki sá sem menn hafa hingað til talið.  

Fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins, að mælingin sé fyrsta sannfærandi rannsóknin sem sé þvert á eina mikilvægustu kenningu nútíma eðlisfræði. Vísindamenn CDF komust að því að W bóseindin sé þyngri en núverandi kenningar segi til um. 

Prófessorinn David Toback, sem er talsmaður hópsins, segir að niðurstaðan hafi verið sláandi. Fram kemur, að uppgötvunin gæti leitt til þróunar á nýrri og fullkomnari kenningu um gangverk alheimsins. 

„Ef aðrar rannsóknir staðfesta þessa niðurstöðu þá erum við að horfa á breytta veröld,“ sagði Toback í samtali við BBC. 

Hann segir jafnframt að það verði að eiga sér stað hugmyndafræðileg breyting. „Vonin er sú að þessi niðurstaða muni leiða til þess að stíflan bresti.“

„Hinn heimsþekkti stjörnufræðingur Carl Sagan sagði eitt sinn að óvenjulegar fullyrðingar þurfi óvenjulegar sannanir. Við teljum okkur hafa þær undir höndum,“ bætti Toback við. 

Vísindamennirnir hafa aðeins fundið örlítið frávik við mælingu á massa W bóseindarinnar samanborið við það sem núverandi kenning segir til um. Munurinn er aðeins 0,1%, en fari það svo að aðrir vísindamenn staðfesta þessa niðurstöðu í öðrum rannsóknum þá gæti þetta leitt til meiriháttar breytinga. 

Hinar hefðbundnu kenningar um öreindir, sem spá fyrir um hegðum og eiginleika þeirra, hafa staðið óhaggaðar í hálfa öld, eða þar til nú. 

Fram kemur að niðurstöðurnar hafa verið birtar í vísindaritinu Science. 

Margir vísindamenn eru þó eðli máls samkvæmt varkárir í sínum viðbrögðum og ætla ekki að hrósa happi of snemma og bíða og sjá hvort aðrar rannsóknir muni leiða sömu niðurstöðu í ljós. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert