Plastúrgangur muni þrefaldast fyrir 2060

Gert er ráð fyrir að notkun plasts verði næstum orðið …
Gert er ráð fyrir að notkun plasts verði næstum orðið þrefalt meira árið 2060. mbl.is/Stefán Einar Stefánsson

Útlit er fyrir því að notkun plasts í heiminum muni næstum þrefaldast á innan við fjórum áratugum, samkvæmt niðurstöðum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), sem birtar voru í gær.

Áætlað er að árleg framleiðsla á plasti, sem unnið er úr jarðefnaeldsneyti, muni fara yfir 1,2 milljarða tonna árið 2060 og úrgangur verði meira en einn milljarður tonna.

Segir í skýrslu OECD að jafnvel með hörðum aðgerðum til að draga úr eftirspurn og bæta skilvirkni, muni plastframleiðsla næstum tvöfaldast á innan við 40 árum. Slíkar aðgerðir gætu aftur á móti aukið endurvinnslu á plastúrgangi úr 12 prósentum í 40 prósent.

„Plastmengun er ein af stóru umhverfisáskorunum 21. aldarinnar, sem veldur víðtækum skaða á vistkerfum og heilsu manna,“ sagði Mathias Cormann, yfirmaður OECD. Vegna hagvaxtar og hækkandi íbúafjölda muni plastframleiðsla aukast.

Magn plastúrgangs nærri tvöfaldast

Um 460 milljónir tonna af plasti voru notuð árið 2019, tvöfalt meira en fyrir 20 árum. Magn plastúrgangs hefur einnig nærri tvöfaldast og farið yfir 350 milljónir tonna. Minna en 10 prósent af því er endurunnið. Talið er að plastúrgangur valdi dauða meira en milljón sjófugla og yfir 100.000 sjávarspendýra á hverju ári.

Þá hefur míkróplast fundist víða á afskekktum svæðum jarðarinnar, eins og í fiskum á dýpstu svæðum hafsins og í jöklum á norðurheimskautinu.

„Samræmd og metnaðarfull alþjóðleg viðleitni getur nánast útrýmt plastmengun fyrir árið 2060,“ segir að lokum í skýrslu OECD.

Sameinuðu þjóðirnar settu fyrr á árinu af stað ferli til að þróa alþjóðlega bindandi sáttmála til að takmarka plastmengun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka