Takmarkanirnar ekki breytt neinu á endanum

Töluverðar takmarkanir voru í Danmörku á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð …
Töluverðar takmarkanir voru í Danmörku á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð en ekki er sömu sögu að segja af Svíþjóð. AFP

Sama niðurstaða varð í Danmörku og Svíþjóð þrátt fyrir að gripið hafi verið til andstæðra ráðstafana við kórónuveirufaraldrinum. Þetta kemur fram í grein Christian Kanstrup Holm, veirufræðings og prófessors við Árhúsaháskóla, og Morten Petersen, prófessors í líffræði við Kaupmannahafnarháskóla. 

Greinin birtist í dagblaðinu Berlingske.

Í grein prófessoranna kemur fram að dánartíðni í Svíþjóð hafi ekki verið meiri en í Danmörku á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð.

Segja þeir erfitt að álykta annað en að sóttvarnaráðstafanir í Danmörku í faraldrinum hafi ekki bjargað neinum mannslífum, ef tekið er mið af Svíþjóð.

Sænska heilbrigðiskerfið hrundi ekki

Ráðist var í talsverðar takmarkanir í Danmörku vegna kórónuveirufaraldursins. Aftur á móti var ekki gert það sama í Svíþjóð. Christian og Morten hafa nú tekið tölfræðiupplýsingar frá báðum löndum og borið saman til að athuga hverju takmarkanir skiluðu fyrir Danmörku. 

„Samkvæmt frásögn flestra er Svíþjóð skólabókardæmið um hvernig röng stjórnun kórónuveirufaraldursins getur leitt til hruns heilbrigðiskerfisins. Sumir af fremstu læknum og stjórnmálamönnum Danmerkur sannfærðu okkur um að við hefðum valið rétt og að Svíþjóð hefði valið vitlaust,“ segir í greininni. 

Eftir að hafa kannað málið sjálfir benda þeir á að sænska heilbrigðiskerfið hafi ekki hrunið þótt það hafi orðið fyrir erfiðleikum.

Byggja þeir á því í greininni og segja að það samræmist ekki raunveruleikanum að segja að takmarkanir hafi verið nauðsynlegar til að koma í veg fyrir hrun heilbrigðiskerfisins í Danmörku. 

Merkilegast árið 2021

Taka þeir fram að þeir geri sér grein fyrir því að grein þeirra geti talist umdeild en að þeir beri á borð þessar upplýsingar fullir auðmýktar. 

„Ef við viljum bestu viðbrögðin við heimfaraldri í framtíðinni þurfum við að þora að ræða fortíðina á grundvelli upplýsinga og gagna,“ segir í greininni.

Eftir því sem fram kemur í þar létust 54.645 af 5,8 milljónum íbúa í Danmörku árið 2020 en í Svíþjóð dóu 98.124 af 10,3 milljónum.

Tala látinna í Danmörku hafi verið eðlileg árið 2020 miðað við fyrri ár en í Svíþjóð hafi talan aukist um sex þúsund miðað við árin fyrir faraldurinn. Myndi það samsvara um það bil þrjú þúsund umframdauðsföllum í Danmörku.

Þeir viðurkenna því að takmarkanir í Danmörku hafi komið í veg fyrir þrjú þúsund dauðsföll árið 2020 en segja það merkilegasta koma í ljós þegar árið 2021 er skoðað. Þá eykst fjöldi látinna í Danmörku en hið gagnstæða gerist í Svíþjóð.

Sama niðurstaða í lokin

Árið 2021 dóu 57.152 manns í Danmörku sem að þeirra sögn er á pari við umframdánartíðni í Svíþjóð árið 2020. Í Svíþjóð er þróunin á annan máta. Þar deyja 91.958 manns árið 2021. Sú tala er á pari við dauðsföll í Svíþjóð á árunum fyrir kórónuveirufaraldurinn.

Segja Christian og Morten því að þegar allur kórónuveirufaraldurinn er tekinn og rannsakaður sé um að ræða sömu niðurstöðu fyrir Danmörk og Svíþjóð hvað varðar dauðsföll og afleiðingar.

„Það er ekki meiri dánartíðni í Svíþjóð miðað við Danmörku á þessu tímabili,“ segir í greininni og ítreka þá ályktun sína að takmarkanir í Danmörku hafi ekki bjargað mannslífum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert