Verslunar- og þjónustufyrirtækið Olís og hleðslufyrirtækið Ísorka hafa undirritað samstarfssamning um uppbyggingu á neti hraðhleðslustöðva sem staðsettar verða á þjónustu- og sjálfsafgreiðslustöðvum Olís um allt land. Stefnt er að uppbyggingu 20 staðsetninga innan tveggja ára þar sem rafbílaeigendur geta hlaðið bifreiðar sínar með fyrsta flokks búnaði.
Frosti Ólafsson framkvæmdastjóri Olís og Sigurður Ástgeirsson framkvæmdastjóri Ísorku segja í samtali við Morgunblaðið að hafist verði handa við fyrstu staðsetningarnar á komandi mánuðum. Stefnt sé að því að 6-8 nýjar staðsetningar verði komnar í notkun fyrir áramót.
„Það er kjarnamarkmið hjá okkur að fjölga vinum við veginn – bæði viðskiptavinum og samstarfsaðilum – og þetta er stórt skref í átt að því marki. Sú uppbygging sem er fram undan er því mikið fagnaðarefni fyrir bæði okkur og rafbílaeigendur,“ segir Frosti.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.