Krabbameinstilvikum fjölgi um 40% á 13 árum

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands, segir að krabbameinstilvikum muni fjölga mikið á Íslandi á næstu árum, en einnig muni „lifendum“ krabbameina fjölga. Rannsóknir á aðferðum sem eiga að greina krabbamein fyrr lofa góðu en heilsusamlegur lífsstíll skiptir einnig sköpum þegar að forðast á sjúkdóminn. 

„Einn stærsti áhættuþátturinn varðandi krabbamein fyrir utan lífsstíl er að eldast. Krabbamein er fyrst og fremst sjúkdómur eldra fólks. Á næstu 13 árum mun krabbameinstilvikum fjölga mjög mikið á Íslandi eða um 40% en um 25% almennt í Evrópu. Það er vegna þess að þjóðinni er að fjölga en fyrst og fremst vegna hækkandi aldurs,“ segir Halla í samtali við mbl.is.

„Á sama tíma, af því að það eru líka framfarir í meðferð, mun lifendum, sem eru þeir sem hafa einhvern tímann fengið krabbamein, hvort sem þeir eru veikir eða hefur batnað, fjölga um 50%.

Talsverður hluti þessa fólks mun þurfa þjónustu í heilbrigðiskerfinu, hvort sem það er vegna áframhaldandi krabbameinsmeðferðar eða þjónusta vegna fylgikvilla til dæmis.“

400 milljónir í rannsóknir

Morgunblaðið sagði frá því í lok síðasta mánaðar að vísindamenn bindi nú vonir við að ný tegund blóðprufa sem kallast Trucheck geti greint um 70 tegundir krabbameina og það áður en meinið kann að hafa dreift sér og/eða valdið miklum skaða.

„Auðvitað bindur maður vonir við að hægt verði að finna aðferðir sem virka þannig að hægt sé að greina krabbamein áður en þau fara að valda einkennum, þá verður meðferð væntanlega mun árangursríkari og vægari. Það er því miður þannig að mörg mein valda einkennum svo seint að þau greinast ekki fyrr en þau eru á stigi þar sem verður lítið eða ekkert ráðið við neitt.“

„Við trúum því að allar þær krabbameinsrannsóknir sem verið er að vinna að leiði okkur í rétta átt,“ segir Halla og bætir við að einmitt þess vegna hafi Krabbameinsfélagið veitt tæpum 400 milljónum á 6 árum, í gegnum vísindasjóð félagsins, í krabbameinsrannsóknir hér á landi fyrir utan þær rannsóknir sem félagið vinnur sjálft.

„Innleiðing nýrra aðferða tekur alltaf tíma. Þar þarf að byggja á góðum rannsóknum, það þarf að vera ljóst að það sem um ræðir skili raunverulega árangri,“ segir Halla.

Þyngra en tárum tekur

„Hversu mikið á að rannsaka frískt fólk, það er eilífðarspurning og ekki bara eitthvað sem við gerum, heldur þarf það að byggja á rannsóknum um fýsileika,“ segir Halla.

Hún segir það þurfa að byggja á rannsóknum hvort og hvernig eigi að skima heilbrigt fólk fyrir krabbameini, hvort sem það sé með blóðprufum eða með skimunum. Vandamál sé hins vegar þegar áætlanir yfirvalda dragist á langin.

„Heilbrigðisyfirvöld hafa stefnt að því í fleiri, fleiri ár að byrja skimanir fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi án þess að það komist í verk. Slík skimun hefur fyrir löngu sannað sig og á hverju ári missum við 65 manns úr þessum krabbameinum.

Við myndum ekki geta bjargað þeim öllum með skimun en hvert einasta líf sem bjargast og hvert mein sem hægt er að grípa fyrr en ómetanlegt.

Hjá heilsugæslunni er nú verið að vinna að undirbúningi skimunarinnar sem mér skilst að fari af stað á næsta ári en þarna þarf svo sannarlega að bretta upp ermar, það er þyngra en tárum tekur hve lengi þetta hefur dregist.“

Hægt að koma í veg fyrir 40% krabbameina

„Eitt er svo að finna krabbameinin snemma og annað er að gera allt sem hægt er til þess að koma í veg fyrir þau. Staðreyndin er að við getum komið í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum með heilsusamlegum lífsstíl,“ segir Halla.

„Við erum farin að sjá núna heilmikinn árangur af tóbaksvörnum sem voru mjög markvissar fyrir áratugum síðan. Nýgengi lungnakrabbameins fer lækkandi og sömuleiðis dánartíðni af völdum þess. Engu að síður er það svo að hér á landi er lungnakrabbamein það krabbamein sem dregur flesta til dauða á ári hverju,“ segir Halla og bætir við að enn sé þörf á átaki stjórnvalda til að vinna gegn sjúkdómnum.

„Svo eru aftur á móti önnur mein þar sem nýgengið er á uppleið, líklega fyrst og fremst tengt lífsstíl, til dæmis krabbamein í ristli og endaþarmi og brjóstum. Og þar þurfum við að gera miklu betur. Við vitum meira og meira um áhættuþætti og þann lífsstíl sem við þurfum að tileinka okkur til að draga úr krabbameinsáhættu.

Við þurfum sem dæmi að passa miklu betur upp á að hreyfa okkur, að borða hollt, passa þyngdina, drekka sem minnst áfengi og auðvitað reykja ekki.“

Halla segir að stjórnvöld þurfi að hjálpa almenningi að taka „réttar“ ákvarðanir líkt og gert var varðandi tóbaksnotkun á sínum tíma.

Stjórnvöld geti beitt alls konar leiðum, til dæmis innleitt aukna hreyfingu í skólum, hækkað og lækkað skatta í vöruflokkum, boðið upp á sérstaklega hollan mat í skólum, takmarkað aðgengi að áfengi og fleira.

„Ef okkur er alvara með að reyna að koma í veg fyrir lífsstílstengda sjúkdóma verðum við að vinna markvisst að því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka