Leysti 20.000 ára gamla gátu

Tunglið kemur við sögu.
Tunglið kemur við sögu. AFP

Breskur húsgagnasmiður á heiðurinn að mikilvægri uppgötvun sem hefur leitt í ljós hvers vegna veiðimenn á ísöld máluðu myndir í hellum. 

Fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins, að Ben Bacon hafi grandskoðað tákn á 20.000 ára gömlum myndum og komst hann að þeirri niðurstöðu að táknin vísuðu til stöðu tunglsins. 

Það varð til þess að teymi sérfræðinga gat sannað að fyrstu íbúarnir í Evrópu skráðu hjá sér tímasetningar um frjósemi dýra. Bacon segir að það hafi verið súrrealískt að hafa komist að því hvað veiðimennirnir til forna voru að segja. 

Víða í Evrópu hafa fundist hellamálverk af ýmsum dýrum, m.a. fiskum, hreindýrum og nautgripum. Fornleifafræðingar höfðu aftur á móti ekki áttað sig á því hvað punktar og önnur tákn á myndunum þýddu. Eða þar til nú. 

Bacon varði mörgum klukkustundum við leit á vefnum og á konunglega breska bókasafninu við að bera saman myndir af hellamálverkum. Hann sankaði að sér miklu magni gagna og hóf að skoða og bera saman þau tákn sem hann fann á myndunum. 

Hann skoðaði m.a. táknið Y á sumum myndum sem hann taldi að væri tákn fyrir fæðingu, þar sem táknið sýnir eina línu vaxa út frá annarri. Niðurstöðurnar bar hann undir vini og fræðimenn sem hvöttu hann til að halda rannsókn sinni áfram, þrátt fyrir að hann væri ekki vísindamaður. 

Hann hóf að starfa með teymi, þar á meðal tveimur prófessorum frá háskólanum í Durham og einum frá háskóla í London, og með því að skoða fæðingartíðni svipaðra dýra í dag, þá komust þeir að þeirri niðurstöðu að fjöldi tákna á hellamálverkunum hafi verið skráning á æxlunartímabilum dýra, sem tók þá mið af gangi tunglsins hverju sinni. 

Uppgötvunin var síðan birt í vísindaritinu Cambridge Archeological Journal. Einn vísindamannanna segir að niðurstöðurnar sýni fram á að veiðimenn á ísöld hafi verið þeir fyrstu sem notuðu dagatal með kerfisbundnum hætti og hafi skráð hjá sér mikilvægar vistfræðilegar breytingar sem hafi átt sér stað á tilteknu tímabili. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert