Neitar að ferja rafbíla

Havila Kystruten hyggst hætta siglingum með raf-, tvinn- og vetnisbifreiðar …
Havila Kystruten hyggst hætta siglingum með raf-, tvinn- og vetnisbifreiðar um borð af öryggisástæðum. Ljósmynd/Havila Kystruten

Ferjuútgerðin Havila Kystruten sem siglir milli Bergen og Kirkenes í Noregi hefur lýst sig andsnúna því að flytja raf-, tvinn- og vetnisbíla með ferjum sínum.

„Þessi ákvörðun er tekin í kjölfar áhættugreiningar sem utanaðkomandi aðili vann fyrir okkur,“ segir Lasse A. Vangstein, talsmaður útgerðarinnar, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, „og niðurstaðan er að taka ekki þessar tegundir bifreiða um borð vegna öryggissjónarmiða.“

Bendir Vangstein á brunahættu bifreiða sem ganga fyrir öðru en jarðefnaeldsneyti. Af bruna í rafmagnsbifreið verði til dæmis gríðarlegur hiti, hætta á sprengingum auk þess sem eitraðar lofttegundir fylgi slíkum bruna í ríkari mæli en bruna í bifreiðum sem ganga fyrir bensíni eða olíu.

Brunar í rafbílum í Noregi hafa verið nokkuð til umræðu undanfarin misseri og sumarið 2021 kynnti slökkviliðið nýja aðferð við að slökkva slíka bruna en hún felst í því að flytja gám fullan af vatni á vettvang og sökkva brennandi rafbílunum í hann eins og mbl.is fjallaði um á sínum tíma.

Vangstein hjá Kystruten segir brennandi rafbíl um borð geta orðið til þess að rýma þurfi ferju tafarlaust og í versta falli geti ferjan orðið fyrir altjóni. Bendir hann sérstaklega á að hönnun ferjanna geri ráð fyrir flutningum fólks og vara.

Útgerðin Hurtigruten hyggst hins vegar ekki gera þessa breytingu hjá sér. Þar á bæ var farið gegnum eigin áhættugreiningu, eftir því sem NRK greinir frá, og niðurstaðan að allar gerðir bifreiða verða áfram gjaldgengar í ferjur fyrirtækisins.

NRK

TV2

Stavanger Aftenblad

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert