Vísindarannsókn á Skagaströnd hlaut 64 milljónir

Bettina Scholz og hópur samstarfsaðila hefur hlotið styrk til rannsóknar …
Bettina Scholz og hópur samstarfsaðila hefur hlotið styrk til rannsóknar á áhrifum PFAS efna á sjávarvistkerfið. Ljósmynd/Skagaströnd

Sjávarlíftæknisetrið BioPol á Skagaströnd hlaut nýverið 64,8 milljóna styrk frá Rannsóknasjóði Rannís og mun nú dr. Bettina Scholz næstu þrjú ár leiða hóp samstarfsaðila vegna rannsóknar á áhrifum per- og pólýflúoroalkýlefna, svokallaðra PFAS-efna, á sjávarvistkerfið.

Fram kemur á vef sveitarfélagsins Skagastrandar að rannsóknaverkefnið sé til þriggja ára og dreifist því styrkupphæðin á árin 2023-2025. Innlendir samstarfsaðilar eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum, Hafrannsóknastofnun og Tæknisetur. Erlendir samstarfsaðilar verkefnisins starfa við háskóla og rannsóknastofnanir m.a í Þýskalandi, Austuríki, Portúgal og Noregi.

Í verkefninu sem Bettina mun leiða verða lifandi kísilþörungar úr stofnasafni BioPol notaðir til þess að reyna að varpa ljósi á áhrif PFAS-efna á líf í sjó og hugsanlegar vistfræðilegar hættur sem því tengjast. Ber rannsóknaverkefnið heitið: „Per og pólýflúoroalkýlefni hitta fyrir kísilþörunga kaldtempraða beltisins og tengdar samlífisverur: Uppsöfnunarleiðir og áhrif á hreysti og auðkenningu.“

Geta verið heilsuspillandi

PFAS-efni hafa verið notuð víða en brjótast hægt niður í náttúrunni og eru því víða í umhverfinu. Hafa þau meðal annars fundist í yfirborðs- og grunnvatni um allan heim, auk þess sem þau hafa verið greind í blóði manna sem og í vefjum fiska, fugla og sjávarspendýra.

Sýnt hefur verið fram á að ákveðinn hópur þessara efna veldur truflun í lykilstarfsemi frumna með tilheyrandi heilsuspillandi áhrifum. Haaf sum efnanna verið tengd við krabbamein og ófrjósemi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka