Háskólarnir hér á landi hafa stofnað vinnuhóp til að bregðast við notkun spjallmenna og annarrar gervigreindar á háskólastigi. Komu fulltrúar skólanna saman í síðustu viku til að greina tækifæri og hættur sem þessari byltingarkenndu tækni fylgja.
„Þar kom skýrt fram að tækifærin eru mörg, en stærsta viðfangsefnið er að kenna og þjálfa kennara í notkun gervigreindar og að ákveða hver takmörkin eru, hvaða siðareglur gilda og einfaldlega hvað má og hvað ekki,“ segir Jón Atli Benediktsson rektor HÍ.
Fram kemur í blaðinu í dag að það séu ekki aðeins tækifæri sem blasi við heldur einnig margvíslegar hættur fyrir þekkingaröflun, nýsköpun og frumkvæði. Raunþekking sé aldrei mikilvægari en nú þegar sérhagsmunaaðilar dæli efni inn á netið til að auka líkur á því að spjallmenni nýti sér það.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.