Bráðnun jökla „út úr kortinu“

Petteri Taalas, forstöðumaður WMO, kynnir ársskýrsluna á blaðamannafundi í dag.
Petteri Taalas, forstöðumaður WMO, kynnir ársskýrsluna á blaðamannafundi í dag. AFP/Fabrice Coffrini

Síðastliðin átta ár hafa verið þau hlýjustu á jörðinni frá upphafi mælinga og þéttleiki svokallaðra gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu á sama tíma aldrei meiri auk þess sem bráðnun jökla heimsins var meiri í fyrra en nokkru sinni. Þetta kemur fram í árlegri loftsslagsskýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar WMO sem birt var í dag.

Skrifar stofnun að bráðnunin hafi hreinlega verið út úr kortinu, eða „off the charts“ eins og það er orðað í skýrslunni og hækkun sjávarborðs í heiminum, til samræmis við þetta, aldrei meiri síðasta áratuginn eða 4,62 millimetrar á ári að meðaltali árin 2013 til 2022 en það er tvöföld meðalhækkun á við árabilið 1993 til 2002. Þá hafa heimshöfin aldrei verið hlýrri samkvæmt skýrslunni enda draga þau til sín um 90 prósent þess hita sem til verður fyrir áhrif gróðurhúsalofttegundanna.

Þynning jökla 30 metrar frá 1970

Var meðalhiti í heiminum  árið 2022 1,15 gráðum hærri en meðaltal áranna 1850 til 1900 segir í skýrslunni sem enn fremur minnir á loftslagsráðstefnuna í París árið 2015 þar sem þátttökuþjóðirnar komust að samkomulagi um að halda hlýnun jarðar „vel undir“ tveimur gráðum yfir ársmeðaltalinu 1850 til 1900, helst undir 1,5 gráðum.

Þeir jöklar heimsins sem hafðir eru til viðmiðunar í rannsóknum WMO þynntust um að meðaltali 1,3 metra á tímabilinu frá október 2021 til sama mánaðar í fyrra og er þar um að ræða mun örari þróun en meðaltal áratugarins á undan. Samanlögð meðalþynning þeirra frá 1970 er hins vegar tæpir 30 metrar.

Í Evrópu bráðnuðu jöklar Alpafjallanna meira en nokkru sinni og voru orsakirnar þar lítil snjókoma, sandryk frá Sahara-eyðimörkinni í mars í fyrra og hitabylgjur á tímabilinu frá maí til september.

Baráttan töpuð hvað jökla snertir

„Við höfum þegar tapað baráttunni hvað bráðnun jökla snertir vegna mikils þéttleika koltvísýrings,“ segir Petteri Taalas, forstöðumaður WMO, í samtali við AFP-fréttastofuna og bendir enn fremur á að í fyrrasumar hafi 6,2 prósent af jöklamassa Alpanna í Sviss horfið sem er það mesta frá upphafi mælinga.

„Þetta er alvörumál,“ segir forstöðumaðurinn og nefnir hugsanlegan skort á neysluvatni með brotthvarfi jökla og einnig vatni til nýtingar í landbúnaði. Þá geti vatnslitlar ár hamlað skipasiglingum um þær. „Þetta er meðal þess sem á eftir að skapa áhættu í framtíðinni,“ segir Taalas og bendir enn fremur á minnkun jöklanna á Suðurskautslandinu og Grænlandi. Þeir muni halda áfram að dragast saman til langs tíma litið, „nema við finnum aðferð til að fjarlægja koltvísýringinn úr andrúmsloftinu“, segir forstöðumaðurinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert